Frammistaðan var okkur til skammar

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, var ómyrkur í máli eftir skellinn …
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, var ómyrkur í máli eftir skellinn á móti FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Frammistaðan var okkur til skammar,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals, eftir 12 marka tap á heimavelli í kvöld fyrir FH, 33:21, í uppgjöri toppliða Olís-deildar karla í handknattleik í Valshöllinni.

„FH-liðið var mörgum skrefum á undan okkur frá upphafi til enda leiksins,“ sagði Guðlaugur sem var vitanlega afar óhress með leik sinna manna, jafnt í vörn sem sókn en Valsliðið skoraði aðeins fimm mörk í fyrri hálfleik en fékk á sig 15.

„Yfirhöfuð vorum menn bara ekki tilbúnir í þetta verkefni,“ sagði Guðlaugur en fyrirfram gerðu margir sér vonir um að leikurinn yrði jafn og spennandi enda bæði liðin taplaus á Íslandsmótinu þegar flautað var til leiks.  „Við stukkum langt út úr karakter í þessum leik og sýndum á þá hlið sem við viljum alls ekki sýna aftur og ég vænti þess að við sjálfir munum ekki þekkja þess hlið á okkur í framtíðinni. Menn vilja ekki ekki vilja vera kjöldregnir og öðlast þá reynslu að tapa leik með þeim hætti sem við gerðum að þessu sinni.

Nú reynir á að vinna úr þessu tapi. Karakter liðsins mun skýrast af því hvernig það verður gert,“ sagði  Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert