ÍR-ingarnir sterkari en ég bjóst við

Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er þrautseigja að gefast ekki upp en ÍR-ingarnir voru bara virkilega sterkir, jafnvel sterkari en ég bjóst við. Það var mikill kraftur og hraði í þeim og þeir unnu mikið á því, þetta var stál í stál en við vorum lélegir sóknarlega og lengi af stað, ég tek það dálítið á mig sjálfan,“ sagði Róbert Aron Hostert, leikmaður ÍBV, eftir 27:25 sigur á ÍR í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

ÍR-ingar voru yfir nær allan leikinn og það var ekki fyrr en á lokamínútunum sem ÍBV sneri taflinu við en gestirnir voru lélegir lengst af, sérstaklega í sókninni og skoraði Róbert sjálfur til að mynda aðeins tvö mörk í leiknum.

„Ég veit ekki hvort við séum að æfa of mikið eða of lítið, ég hef eiginlega ekki útskýringar á þessu. Það er eins og við byrjum alla leiki á að þurfa að skjóta okkur í gang, við þurfum eitthvað að fara yfir þetta.“

„Við erum langt frá okkar getu og þá er auðvitað þvílíkur karakter að vinna og við höfum ekki verið að gera það undanfarið. Við höfum verið að spila illa og lenda í jafnteflum og töpum þar sem við eiginlega bara gefumst upp. Það er jákvætt að vinna þegar við erum ekki að spila okkar sterkasta leik.“

Róbert hrósaði andstæðingunum í hástert eftir leik.

„Þeir eru frábærlega mannaðir, það er auðvitað þvílíkur missir fyrir þá að Bjöggi detti út en þeir eru með marga góða leikmenn í þessu liði og létu okkur heldur betur hafa fyrir hlutunum.“

Theodór Sigurbjörnsson, hornamaður ÍBV, var ekki með í dag en hann er smávægilega meiddur.

„Ég veit ekki alveg stöðuna á honum, þetta eru smávægileg meiðsli. Auðvitað söknum við besta leikmanns deildarinnar, hver myndi ekki gera það?“

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og voru dómararnir nokkrum sinnum í sviðsljósinu en Róbert hafði gaman af ástríðunni og baráttunni.

„Þetta er bara ástríða, það er keppnisskap í mönnum og allir á fullu allan tímann. Þeir dæmdu þetta bara vel, auðvitað er einhver einn og einn vafadómur í hverjum einasta leik sem bæði lið eru ósátt með en þetta var bara hörkuleikur, vel barist og gaman,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert