Ávallt gerðar miklar kröfur í Eyjum

Eyjamenn hafa verið að upplifa sitt blómaskeið síðustu ár.
Eyjamenn hafa verið að upplifa sitt blómaskeið síðustu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlalið ÍBV í handbolta hefur á síðustu 4-5 árum upplifað mestu velgengni í rúmlega 30 ára sögu sinni. Toppnum var náð árið 2014 þegar liðið varð óvænt Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn, á sínu fyrsta ári í efstu deild eftir talsvert langt uppbyggingarskeið. Í dag er liðið áfram eitt það albesta á landinu, með mannskap sem hæglega getur barist um titlana á seinni hluta leiktíðarinnar.

„Fyrir um áratug var tekin sú stefna að horfa meira til þess hvað við gætum búið til úr okkar efniviði. Það má segja að við höfum hálfpartinn neyðst til þess eftir dýran rekstur þar á undan, en þessi stefna hefur nú skilað sér margfalt. Í hópnum sem varð Íslandsmeistari 2014 voru uppaldir Eyjamenn í lykilhlutverkum, rétt eins og nú, og við höfum svo fengið til okkar menn sem passa í hópinn bæði sem leikmenn og karakterar,“ segir Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, sem verið hefur leikmaður eða þjálfari liðsins drjúgan part ævinnar.

Íslandsmeistaratitillinn árið 2014 er ekki eini titillinn sem Eyjamenn hafa unnið til. Þeir urðu bikarmeistarar árið 1991 með menn eins og Guðfinn Kristmannsson, Sigmar Þröst Óskarsson, Sigurð Gunnarsson, Jóhann Pétursson og fleiri í stórum hlutverkum. Sama ár náði liðið í bronsverðlaun á Íslandsmótinu.

Árið 2005 átti liðið aftur mjög öflugt lið en þar fór í broddi fylkingar georgíska stórskyttan Tite Kalandadze sem raðaði inn mörkum fyrir ÍBV og var kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Eyjamenn höfnuðu í 2. sæti efstu deildar það ár, tveimur stigum á eftir Haukum, og komust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins þar sem þeir þurftu einnig að sætta sig við að verða undir gegn Haukum, 3:0. Auk Kalandadze voru markvörðurinn Roland Eradze, Svavar Vignisson, Samúel Ívar Árnason og fleiri í burðarhlutverkum.

Eins og Arnar benti á var rekstur liðsins á þessum tíma talsvert dýr, auk þess sem kvennalið ÍBV sem frekar hefur verið kyndilberi félagsins í gegnum tíðina, var einnig skipað sterkum leikmönnum sem kostuðu sitt. Ekki tókst að fylgja árangrinum eftir og féll ÍBV niður um deild ári seinna, eða 2006.

Eyjamenn léku í 1. deildinni næstu árin. Arnar sneri heim sumarið 2009, eftir að hafa verið fyrirliði Íslandsmeistara Hauka, og eftir eitt ár sem leikmaður tók hann við þjálfun liðsins. Arnar hefur stýrt liðinu síðan þá, fyrir utan tímabilið 2014-2015, en gert það meðal annars til móts við Erling Richardsson, núverandi landsliðsþjálfara Hollands, og Gunnar Magnússon, þjálfara Hauka.

Ítarlega liðskynningu um karlalið ÍBV í handknattleik má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert