Rotaðist og mundi ekkert eftir atvikinu

Þórhildur Braga Þórðardóttir sækir að vörn ÍBV í leiknum í …
Þórhildur Braga Þórðardóttir sækir að vörn ÍBV í leiknum í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórhildur Braga Þórðardóttir, leikmaður kvennaliðs Hauka í handknattleik, var flutt á sjúkrahús eftir að fengið þungt höfuðhögg í leiknum gegn ÍBV í Olís-deild kvenna í Schenker-höllinni að Ásvöllum í gærkvöld.

Þórhildur kvartaði undan verkjum í hálsi og þar af leiðandi var ekki tek­in áhætta á að hreyfa hana nema með aðstoð fag­fólks. Það liðu hins vegar 45 mínútur þar til sjúkrabíll kom á staðinn og á meðan var leikurinn stöðvaður.

„Þórhildur fór strax í myndatöku þegar hún komst loksins á sjúkrahúsið og niðurstaðan úr þeim myndum kom bara vel út og þetta lítur bara nokkuð vel út eftir atvikum sem betur fer. Hún fékk heilahristing og ef allt gengur að óskum þá verður hún ekki lengi frá,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is í morgun.

„Mér skilst að hún hafi fengið að fara heim í nótt. Hún var nokkuð fljót að jafna sig. Hún rotaðist og mundi ekkert eftir atvikinu. Sjúkraþjálfararnir sögðu að hún hefði kvartað yfir eymslum í hálsi og þar með ekki tekin nein áhætta með að hreyfa við henni fyrr en sjúkrabíllinn kom á vettvang.

Biðin eftir honum var ansi löng og það er ekkert eðlilegt við það að þurfa að bíða í 45 mínútur eftir sjúkrabíl en við hittum á slæman dag út af þessu veðri sem gekk yfir. Það kom upp umræða um að flauta leikinn af en þá birtist sjúkrabíllinn og þar með var ákveðið að klára leikinn. Ef þetta hefði verið lið af höfuðborgarsvæðinu hefðu menn mögulega tekið þá ákvörðun að spila síðari hálfleikinn í dag en fyrst þetta var ÍBV urðum við að ljúka leiknum,“ sagði Elías Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert