Spila tvo leiki á sólarhring

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Ljósmynd/rhein-neckar-loewen.de

Þýska meistaraliðið Rhein-Neckar Löwen, sem þeir Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson leika með, stendur í ströngu um helgina.

Á morgun sækir Löwen lið Leipzig heim í þýsku 1. deildinni og 25 klukkustundum síðar verður flautað til leiks í viðureign Löwen og spænska meistaraliðsins Barcelona í Meistaradeildinni. Guðjón Valur Sigurðsson snýr þá aftur á sinn heimavöll í Barcelona en Aron Pálmarsson er sem kunnugt er orðinn leikmaður Barcelona.

Aron lék um síðustu helgi sinn fyrsta leik með Barcelona þegar liðið vann tíu marka sigur gegn Zagreb í Meistaradeildinni en hann var löglega afsakaður á þriðjudaginn þegar Barcelona vann sinn 130. deildarsigur í röð því á sama tíma var hann viðstaddur fæðingu dóttur sinnar. Aron verður klár í slaginn á morgun.

Vardar frá Makedóníu er í efsta sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar með 11 stig, Löwen er í öðru sætinu með 10 og Barcelona í því þriðja með 9 stig. Fyrri leik Rhein-Neckar Löwen og Barcelona, sem fram fór í Mannheim í september, lyktaði með jafntefli, 31:31.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert