Vildu bæta fyrir drulluna í síðasta leik

Egill Magnússon.
Egill Magnússon. mbl.is/Golli

„Ég er mjög sáttur,“ sagði stórskyttan Egill Magnússon eftir að hann og samherjar hans í Stjörnunni sigruðu ÍR, 31:21, á útivelli í 9. umferð Olís-deildar karla í handknattleik síðdegis. Stjarnan er eftir leikinn í 5. sæti með 11 stig.

ÍR rótburstaði Stjörnuna, 37:25, í bikarkeppninni á fimmtudagskvöld en Egill var skiljanlega ánægðari með leikinn og niðurstöðuna í dag. „Þetta er aðeins betra, 21 marks sveifla,“ sagði Egill og glotti en hann skoraði átta mörk og var markahæstur Garðbæinga.

„Ég held að menn hafi farið heim eftir leikinn á fimmtudag og tekið til í hausnum á sér. Við ætluðum að koma inn, hafa gaman af þessu og bæta fyrir drulluna í síðasta leik,“ segir Egill og hann var ánægður með eigin frammistöðu í Breiðholtinu í dag:

„Ég er mjög ánægður með minn leik í dag, var léttari á mér en ég hef verið upp á síðkastið. Ég er líka búinn að taka aðeins til í hausnum á mér en mér fannst ég vera þungur á fimmtudag og líður núna betur inni á vellinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert