Hreiðar hetja Gróttu í fyrsta sigrinum

Einar Sverrisson býr sig undir að skjóta að marki Gróttu …
Einar Sverrisson býr sig undir að skjóta að marki Gróttu í kvöld en Hannes Grimm er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grótta vann langþráðan fyrsta sigur í Olís-deild karla í handknattleik þetta tímabilið þegar liðið vann háspennusigur á Selfossi á heimavelli sínum í 9. umferðinni, 22:21, þar sem lokakaflinn var rafmagnaður.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi. Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar eða svo áður en Selfoss náði tveggja marka forskoti. Í stöðunni 6:4 fyrir Selfoss fékk liðið hins vegar tvær brottvísanir í röð og þann kafla nýttu Gróttu sér vel, skoruðu fimm mörk gegn einu og komust yfir 9:7.

Selfyssingar voru vankaðir eftir þetta og reyndu að finna taktinn í sóknarleiknum á ný. Þeir unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn á ný og náðu að jafna, en þegar flautað var til hálfleiks var Grótta með eins marks forskot 12:11.

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst snemma í 16:13, sem var í fyrsta sinn í leiknum þar sem munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Við þetta brotnuðu Selfyssingar algjörlega; þeir skoruðu eitt mark á 14 mínútna kafla og voru algjörlega ráðalausir í sókninni.

Selfoss vann sig loks inn í leikinn á ný og þegar mínúta var eftir minnkaði liðið muninn í 22:21. Lokasekúndurnar voru spennuþrungnar þar sem Hreiðar Levý Guðmundsson, sem var frábær í marki Gróttu og varði 19 skot, varði lokaskot leiksins og tryggði sigurinn 22:21.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

Grótta 22:21 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Fyrsti sigur Gróttu í vetur og fögnuðurinn er gríðarlegur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert