Skömmustulegir Rússar

FH-ingarnir glaðir eftir sigurinn í vítakeppninni gegn St.Pétursborg í gær.
FH-ingarnir glaðir eftir sigurinn í vítakeppninni gegn St.Pétursborg í gær. Ljósmynd/Facebook-síða FH

„Það hefði verið alveg glatað að tapa og fara svo í þetta ferðalag til baka, svo það var bara eins gott að við unnum þetta,“ sagði Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að FH-ingar unnu St. Pétursborg ytra í hinni víðfrægu vítakeppni milli liðanna sem blása þurfti til vegna mistaka eftirlitsmanns í einvígi þeirra í EHF-bikarnum í síðasta mánuði.

Vítakeppnin fór fram fyrir framan um 300 háværa stuðningsmenn rússneska liðsins. Ásbjörn Friðriksson steig fyrstur á vítalínuna fyrir FH en brenndi af, áður en þeir Einar Rafn, Óðinn Þór Ríkharðsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ísak Rafnsson skoruðu. Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö vítaköst Pétursborgarliðsins og vann FH því 4:3 og er komið áfram í þriðju umferð þar sem Tatran Presov frá Slóvakíu bíður.

Engin fordæmi eru fyrir vítakeppni eins og þessari, en hvernig var andrúmsloftið á staðnum?

„Það var voðalega sérstakt og maður vissi ekki alveg hvernig ætti að hegða sér. Það var rosalega mikil spenna í loftinu og maður fann hvað hvert víti skipti miklu máli. Það voru miklar tilfinningar í þessu,“ sagði Einar Rafn, en eftir keppnina var stemningin ekki síður undarleg.

„Við þökkuðum fyrir leikinn og þeir voru bara frekar kjánalegir. Það var eins og þeir hafi vitað upp á sig sökina. Hornamaðurinn sagði bara „sorry“ við alla þegar við tókumst í hendur, svo þetta var frekar sérstakt,“ sagði Einar Rafn, sem sjálfur þurfti að fara nokkra krókaleið til Pétursborgar til þess að geta tekið þetta eina víti.

Vélin yfirbókuð og smá stress

FH flaug til London á föstudag og áfram til Pétursborgar á laugardag, en vélin þangað var yfirbókuð og sat hann því eftir ásamt Jóhanni Karli Reynissyni og Sigurði Erni Þorleifssyni liðsstjóra. Þeir flugu til Helsinki, þaðan til Pétursborgar og misstu af æfingu FH við komuna á laugardag. Hafði það einhver áhrif?

„Það var allt í lagi svo sem, en ef við hefðum tapað þá hefði ég sagt að það hafi haft áhrif,“ sagði Einar í léttum dúr. „Þetta var í tæpari kantinum kannski enda þurfti maður aðeins að ná að sofa, þar sem við vorum komnir til Pétursborgar um 10 á laugardagskvöldið.“

Sjá allt viðtalið við Einar Rafn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert