Akureyringar með markaveislu

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Akureyri gefur ekkert eftir í toppbaráttu 1. deildar karla í handknattleik, Grill 66-deildinni, og vann risasigur þegar Hvíti riddarinn kom í heimsókn norður yfir heiðar í kvöld.

Akureyringar fóru á kostum og voru með 12 marka forskot strax í hálfleik, 23:11, og bættu enn í það eftir hlé þar sem að lokum munaði 18 mörkum á liðunum, lokatölur 42:24 fyrir Akureyri.

Ihor Kopyshynskyi var markahæstur með 8 mörk fyrir Akureyri en hjá Hvíta riddaranum var Bjarki Kristinsson einnig með 8 mörk. Akureyri jafnaði HK að stigum í öðru sætinu með 12 stig og á einnig leik til góða, en Hvíti riddarinn er án stiga á botninum.

Valur U vann spennusigur gegn Mílunni á útivelli, 24:21, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik 11:10. Arnór Snær Óskarsson og Gísli Gunnarsson skoruðu báðir 5 mörk fyrir Valsmenn eins og Sigurður Már Guðmundsson sem var markahæstur hjá Mílunni. Valsliðið er með sex stig eftir sjö leiki en Mílan er með þrjú stig í næstneðsta sæti.

Það var svo mikil spenna þegar Þróttur fékk Stjörnuna U í heimsókn. Stjörnumenn voru marki yfir í hálfleik 12:11 og unnu að lokum eins marks sigur 24:23. Hörður Kristinn Örvarsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 6 mörk eins og Styrmir Sigurðarson hjá Þrótti. Stjarnan hefur 6 stig en Þróttur hefur 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert