Alls ekkert sjálfsagt

Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Ég er mjög ánægður að fá framlengingu á samninginn. Það er ekkert sjálfsagt þegar maður er kominn á þennan aldur,“ sagði handknattleiksmaðurinn Vignir Svavarsson í gær þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans til Jótlands.

Vignir hafði þá nýlokið við skrifa undir eins árs framlengingu á samningi sínum við danska úrvalsdeildarliðið Team Tvis Holstebro, TTH.

Vignir, sem er 37 ára gamall, er nú á sínu öðru keppnistímabili með TTH en félagið hefur bækistöðvar á bænum Holstebro á Jótlandi. „Ég er afar ánægður með að geta leikið eitthvað áfram. Ég er orðinn gamall kall í boltanum þótt vissulega sé Guðjón Valur Sigurðsson miklu eldri en ég,“ sagði Vignir léttur í bragði en hann er ári yngri en Guðjón Valur.

Vigni og fjölskyldu líkar vel við lífið í Danmörku. Af þessum ástæðum hafi hann ekki hikað við að halda áfram þegar rætt var um nýjan samning. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að framhald verði á er þessi nýi samningur rennur út um mitt árið 2019.

„Ég hefði aldrei skrifað undir nýjan samning nema vegna þess að ég hef ennþá mjög gaman af handboltanum auk þess sem skrokkurinn er ennþá í lagi. Líkamlega hef ég verið í mjög góðu standi síðustu tvö til þrjú ári. Af þeim sökum var engin ástæða til þess að hætta,“ segir Vignir og bætir við að e.t.v. komi þar eitthvað inn í að hann hefur minna verið með landsliðinu síðasta árið, svo dæmi sé tekið. Vignir er einn leikjahæsti landsliðsmaður Íslands með 234 leiki að baki og m.a. þátttöku í flestum stórmótum landsliðsins frá 2005.

Sjá allt viðtalið við Vigni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert