Gamla góða seiglan

Valsarinn Ýmir Örn Gíslason er hér að skora eitt af …
Valsarinn Ýmir Örn Gíslason er hér að skora eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta var gamla góða seiglan,“ sagði Valsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason við mbl.is eftir sigur sinna manna gegn Aftureldingu í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld.

Með sigrinum náðu Ýmir og félagar hans eins stigs forskoti á FH-inga í toppsæti deildarinnar.

„Við vorum skrefinu á undan framan af leik og þegar við náðum fimm marka forskoti um miðjan seinni hálfleik þá var þetta aldrei í hættu. Við höfum stundum dottið niður og átt vondan kafla en nú héldum við út leikinn og ég var ánægður með það,“ sagði hinn gríðarlega efnilegi Ýmir Örn sem á framtíðina fyrir sér á handboltavellinum.

„Við leggjum mikið upp úr mörkum og markvörslu og þessir hlutir voru í góðu lagi í kvöld. Við héldum þeim í 23 mörkum þrátt fyrir að þeir spiluðu sóknarleikinn sjö á móti sex síðasta korterið,“ sagði Ýmir Örn sem skoraði 4 mörk af línunni, fiskaði mörg vítaköst og var firnasterkur í vörninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert