Ráðleggur stjörnunni að sleppa EM

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/thw-handball.de

Alfreð Gíslason þjálfari þýska handknattleiksins Kiel ráðleggur króatíska leikstjórnandanum Domagoj Duvnjak að taka ekki þátt á Evrópumótinu í janúar sem fram fer í Króatíu en Íslendingar eru einmitt í riðli með Króötum á mótinu.

Duvnjak hefur verið frá keppni síðustu mánuðina vegna meiðsla en Alfreð reiknar með því að snúi til baka inn á völlinn í næsta mánuði.

„Það væri best fyrir alla aðila að hann tæki ekki þátt í Evrópumótinu,“ sagði Alfreð í viðtali við þýska blaðið Handball Woche en Alfreð er annt um heilsu leikmannsins sem hefur verið óheppinn með meiðsli á sínum ferli.

Duvnjak hefur oftar enn ekki reynst íslenska landsliðinu óþægur ljár í þúfu í viðureign Íslendinga og Króata en auk þeirra spila í riðlinum Serbar og Svíar og verður riðillinn spilaður í Split.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert