FH á toppinn á nýjan leik

FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson ógnar marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld …
FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson ógnar marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld en Brynjar Jökull Guðmundsson er til varnar. mbl.is/Eggert

FH komst í efsta sæti Olísdeildar karla í handknattleik á nýjan leik í kvöld með sigri á Stjörnunni, 30:27, í Kaplakrika. FH var með yfirhöndina í hálfleik, 15:10, og náði mest sex marka forskoti í síðari hálfleik. FH-ingar hafa þar með 18 stig, stigi meira en Valur sem á leik til góða en Valsmenn eiga ekki leik fyrr en á mánudagskvöldið.

Stjarnan hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum en eftir að FH skoraði sex mörk í röð og breytti stöðunni úr 4:2 Stjörnunni í hag í 8:4 var forystan FH-inga allt til leiksloka. 

Stjörnumenn voru vængbrotnir í kvöld en þeir léku án Egils Magnússonar, Ara Magnúsar Þorgeirssonar og Stefáns Darra Þórssonar. Auk þess harkaði Aron Dagur Pálsson af sér og lék með þrátt fyrir meiðsli. Leikur liðsins var slakur í fyrri hálfleik en skánaði til muna í þeim síðari, ekki síst eftir að markverðir liðsins vöknuðu til lífsins. Stjörnunni tókst aldrei að ógna FH-ingum sem gerðu það sem þeir þurftu til þess að vinna.

Ágúst Elí Björgvinsson átti fínan leik í marki FH-inga og Ásbjörn Friðriksson bar sóknarleik liðsins á herðum sér í síðari hálfleik. Ágúst Birgisson var fjarri góðu gamni í liði FH.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

FH 30:27 Stjarnan opna loka
60. mín. FH tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert