Hausverkur að púsla saman liðinu

Einar Jónsson skipar leikmönnum sínum fyrir í leiknum í Kaplakrika …
Einar Jónsson skipar leikmönnum sínum fyrir í leiknum í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Eggert

„Það var ákveðinn hausverkur að púsla saman liði fyrir þennan leik. Sé tekið mið af því var að minnsta kosti síðari hálfleikur að mörgu leyti góður hjá okkur,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir þriggja marka tap liðsins fyrir FH, 30:27, í 11. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Stjarnan lék án Ara Þorgeirs Magnússonar, Egils Magnússonar og Stefáns Darra Þórssonar að þessu sinni auk þess sem Aron Dagur lék „nánast á öðrum fætinum,“ eins og Einar þjálfari orðaði það. „Það var ekki alveg ljóst fyrr en tíu mínútum áður en leikurinn hófst hvernig endanlegt lið yrði hjá okkur,“ sagði Einar en skömmu áður en flautað var til leiks varð ljóst að Ari Magnús tæki ekki þátt.

„Margir leikmenn hafa ekki verið í stóru hlutverki hjá okkur fram til þessa og aðrir nánast ekki verið í neinu hlutverki fyrr en núna. „Mér fannst við leysa vel úr þeirri stöðu sem kom upp. Fyrri hálfleikur fór í að kanna hvað gæti gengið og hvað ekki. Segja má að við höfum tapað leiknum í fyrri hálfleik. Það er erfitt að vera undir lengi vel gegn FH. Ég er stoltur af strákunum fyrir að leggja ekki árar í bát heldur herða róðurinn og gera þetta að leik á síðustu mínútunum.“

Einar sagði ljóst að Stefán Darri verður frá keppni út þetta ár. „Hins vegar er alveg óljóst hversu lengi Egill, Ari Magnús og Aron Dagur verða að jafna sig og hvaða áhrif þátttaka þess síðarnefnda í leiknum í kvöld hefur á hans meiðsli. Aron Dagur lék nánast á öðrum fætinum og sýndi hversu mikið í hann er spunnið og átti frábæran leik í síðari hálfleik,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert