Miðasala stöðvuð á leiki í riðli Íslands

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína.
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína. Ljósmynd/IHF

Króatíska handknattleiksambandið hefur neyðst til þess að hætta sölu á miðum á leiki í A-riðli á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Króatíu í janúar en Ísland leikur í þeim riðli ásamt Króatíu, Serbíu og Svíþjóð.

A-riðillinn á fara fram í Split en mikill óvissa er hvort hægt verði að spila í höllinni í Split. Hún er ekki tilbúin vegna þess að félagið sem reisti hana og átti varð gjaldþrota fyrir nokkru. Ekki hafa náðst samningar milli króatíska handknattleikssambandsins og þrotabúsins vegna kostnaðar við rekstur íþróttahallarinnar meðan á keppninni stendur og um betrumbætur á henni svo hægt verði að leika handknattleik þar.

Samningar verða að nást fyrir mánudaginn en takist þeir ekki verður króatíska handknattleikssambandið að finna annan stað fyrir leikina í A-riðlinum. Líklegt er að sá staður verði Osijek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert