Óþarflega mikill slaki í lokin

Jóhann Karl Reynisson, FH-ingur, á auðum sjó.
Jóhann Karl Reynisson, FH-ingur, á auðum sjó. mbl.is/Eggert

„Það kom óþarflega mikill slaki í okkur þegar á leið síðari hálfleik og við komnir með sex til sjö marka forskot. En við unnum leikinn og það er ég fyrst og fremst ánægður með þótt munurinn hefði mátt vera meiri,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir þriggja marka sigur á Stjörnunni, 30:27, á heimavelli í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld.

„Við lékum góða vörn í fyrri hálfleik og Gústi var öflugur í markinu. Þetta lagði grunninn að fimm marka forskoti í hálfleik og síðan varð munurinn mestur sjö mörk í síðari hálfleik. Stigin tvö eru góð,“ sagði Halldór Jóhann en með sigrinum endurheimti FH efsta sæti deildarinnar, í bili að minnsta kosti, eftir tvo tapleiki í röð. „Það er alltaf jákvætt að snúa við blaðinu eftir tapleiki.“

Eins og hjá Stjörnunni voru afföll í liði FH. Ágúst Birgisson var frá vegna meiðsla og eins Jóhann Birgir Ingvarsson. „Gísli Þorgeir meiddist undir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Halldór og bætti við að ekki væri komið í ljós hvort meiðsli Gísla væri alvarleg en FH-ingar fara til Slóvakíu á föstudagsmorgun. Þeir mæta Tatran Presov í EHF-keppninni ytra á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert