Þurfum að hætta þessum sveiflum

Guðmundur Helgi Pálsson lifði sig inn í leikinn í Eyjum …
Guðmundur Helgi Pálsson lifði sig inn í leikinn í Eyjum í kvöld. mbl.is/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Fram tapaði gegn meistaraefnum ÍBV með sjö marka mun í fyrsta heimaleik ÍBV á tímabilinu í Olísdeild karla í handknattleik.

Spilað var á glænýju parketi í nýja sal Íþróttahúss Vestmannaeyja og buðu liðin upp á veislu í fyrri hálfleik. ÍBV stakk af í seinni hálfleik og vann að lokum sigur 31:24, en Framarar skoruðu einungis átta mörk í seinni hálfleik.

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Framara, var alls ekki sáttur með sína menn eftir stórtap gegn ÍR í síðustu umferð en hann var mun sáttari með sína menn í dag þrátt fyrir að honum hafi fundist tapið vera of stórt.

„Heilt yfir sýndum við þeim ágætisleik, í langan tíma. Ég var ánægður með mína menn í dag, þetta eru klaufamistök sem við gerum inni í leiknum, sem gefa þeim fullt af hraðaupphlaupum. Þetta var forskot sem er erfitt að koma til baka og ná í, gegn ÍBV.“

Framarar byrjuðu illa í dag, þeir voru 6:2 undir eftir átta mínútna leik en náðu þá að skora fimm mörk í röð eftir leikhlé frá Guðmundi, það sýndi karakter að koma svona til baka.

„Nákvæmlega, það sem ég sagði við mína menn í leikhléinu var: „Af stað, þið hafið engu að tapa, gerum okkar allra besta í dag,“ menn gerðu það en ekki nógu lengi. Ég hefði viljað fá þetta aðeins lengur, menn voru aðeins of fljótir að henda inn handklæðinu eftir að við misstum þá fjórum mörkum frá okkur. Ef þetta hefði endað með tveimur, þremur eða fjórum mörkum, þá hefði ég verið mjög sáttur. Sjö mörk er kannski aðeins of mikið.“

Höfðu leikmenn Fram ekki kraftinn í að halda í við Eyjamenn í 60 mínútur?

„Við vorum að spila 3-2-1 sem tekur rosa orku, við höfðum lítinn tíma til þess að undirbúa það í sjálfu sér. Mínir menn eru alveg í formi, það vantar aðeins meiri breidd, til þess að geta skipt fleirum inn á. Þegar það kemur þá getum við alveg spilað þessa vörn.“

Kári Kristján Kristjánsson skoraði rúman þriðjung marka ÍBV, Framarar réðu illa við hann.

„Hann var stórkostlegur í dag, frábær. Það var eiginlega alveg sama hvernig var hent á hann, hann greip allt og missti hann skeytin inn. Það var gaman að sjá í dag, hann var mjög góður og við áttum í vandræðum með hann.“

Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, var nálægt því að fjúka af velli í dag þegar Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson, dómarar leiksins, ræddu hvort þeir ættu að senda hann af velli fyrir að slá í andlit Andra Heimis Friðrikssonar. Hvað fannst Guðmundi um það atvik?

„Hann er mjög nálægt honum, Arnar er einfaldlega að reyna að fara fram hjá honum, hann var ekki að reyna að kýla hann, ég veit það. Auðvitað rakst hann í hann og baðst afsökunar strax, en þetta var bara óhapp, það er bara þannig.“

Framarar eru með eitt stig í síðustu fjórum leikjum, það er kannski ekki nógu gott?

„Nei, eða, nei það er ekki nógu gott, við hefðum verið til í fleiri stig. Spilamennskan er að lagast, þetta kemur hægt og rólega, við þurfum að hætta þessum sveiflum. Þar sem við spilum rosalega vel og rosalega illa, um leið og það lagast getum við vonandi farið að hala inn fleiri stigum.“

Arnar Birkir náði sér ekki á strik í dag, hann skoraði einungis fjögur mörk og hafa Framarar oft fengið meira frá honum, allavega hvað varðar markaskorun.

„Já, við bjuggumst alveg við því, liðin eru farin að taka hann úr umferð, eða hálftaka hann úr umferð eins og í dag. Það er hlutur sem við þurfum að bregðast við og erum að fara að æfa í næstu viku,“ sagði Guðmundur að lokum en hann valdi að líta á björtu hliðarnar í leik sinna manna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert