Fyrsti sigur Fjölnismanna

Átök í botnslag Fjölnis og Gróttu í dag.
Átök í botnslag Fjölnis og Gróttu í dag. mbl.is/Eggert

Fjölnir vann sinn fyrsta leik í vetur og þar með þann fyrsta í efstu deild karla frá upphafi með 34:31 sigri á Gróttu í fallbaráttuslag í Grafarvoginum í kvöld. Leikurinn var liður í 11. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Heimamenn voru að leita eftir sínum fyrsta sigri í vetur en Fjölnir hafði gert þrjú jafntefli og tapað sjö til þessa. Grótta tapaði fyrstu átta leikjum sínum en vann næstu tvo og eygði möguleikann á að vinna sinn þriðja leik í röð.

Heimamenn tóku frumkvæðið í upphafi leiks og voru mest fjórum mörkum yfir en gestirnir náðu að vinna sig inn í leikinn aftur og var munurinn tvö mörk í hálfleik, staðan 19:17. Gróttumenn urðu fyrir áfalli um miðbik fyrri hálfleiks þegar einn af þeirra bestu leikmönnum, Finnur Ingi Stefánsson, fór af velli meiddur og spilaði hann ekki meira í leiknum. Breki Dagson var allt í öllu í liði Fjölnis og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleiknum en sænska skyttan Max Jonsson, sem er að spila meiddur, setti fimm fyrir Gróttu.

Leikurinn var áfram í járnum í síðari hálfleik og varð baráttan meiri og meiri eftir því sem leið á leikinn. Mikið var um brottvísanir og talsverður hiti var í mönnum en Fjölnismenn voru sterkari og voru yfir allan seinni hálfleikinn en mikil spenna var undir lokin. Heimamenn létu ítrekað reka sig út af þegar lítið var eftir og gaf það Gróttu möguleika á að snúa taflinu en þeir nýttu það engan vegin og létu reka sig út af ítrekað sjálfir og ætlaði allt um koll að keyra á síðustu mínútunum en tvö rauð spjöld, eitt á hvort lið, fóru á loft undir lokin. Max Jonsson var rekinn af velli fyrir gróft brot en Sveinn Jóhannsson, leikmaður Fjölnis, fékk sína þriðju brottvísun á lokamínútunni.

Breki Dagsson átti stórleik og sömuleiðis kom Bjarki Snær Jónsson gífurlega vel inn og átti mjög mikilvægar markvörslur undir lokin til að tryggja Fjölnismönnum sinn fyrsta sigur í vetur en þeir fara í fimm stig og upp fyrir Gróttu í 10. sætið.

Fjölnir 34:31 Grótta opna loka
60. mín. Sveinn Jóhannsson (Fjölnir) rautt spjald Fær sína þriðju brottvísun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert