Var mikilvægasti leikur tímabilsins

Breki Dagsson, Fjölni.
Breki Dagsson, Fjölni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er þvílíkur léttir, við gerðum þrjú jafntefli þar sem við hefðum átt að vinna og loksins gerðum við það. Þetta var ekkert smá sætt,“ sagði Breki Dagsson, leikmaður Fjölnis, eftir 34:31 sigur á Gróttu í 11. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Grafarvoginum í dag.

Fjölnir landaði sínum fyrsta sigri í dag og segir Breki að þetta hafi verið mikilvægasti leikur tímabilsins, en hann var frábær í liði Fjölnis og skoraði átta mörk.

„Þetta var hálfgerður úrslitaleikur. Þetta var auglýst sem mikilvægasti leikur tímabilsins og þetta var það, þeir hefðu svolítið skilið okkur eftir ef við hefðum ekki unnið. Núna höldum við bara áfram og stefnum hærra.“

Mikil læti voru undir lokin og fóru meðal annars tvö rauð spjöld á loft, eitt á hvort lið, á lokamínútunum. Gróttumenn voru sérstaklega ósáttir með dómgæslu leiksins en Breki segir þetta vera hluta af leiknum.

„Ég veit ekki, sumt af þessu fannst mér frekar ódýrt en ég veit það ekki. Mikil harka og mikið út af, það eru margir leikir í vetur þar sem við höfum verið ósáttir með dómgæsluna en þetta er bara partur af leiknum, við breytum því ekki.“

Að lokum er hann bjartsýnn á framhaldið nú þegar fyrstu umferð deildarinnar er lokið.

„Við erum með fimm stig núna og fyrsta umferðin búin. Nú höldum við bara áfram að safna stigum í pokann, við ætlum okkur að vera áfram í þessari deild. Það kannski skiptir ekki máli að við töpum stórt á móti efstu liðunum á meðan við vinnum leiki í neðri hlutanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert