Náðum að jarða þá í byrjun

Jóhann Karl Reynisson fór á kostum í liði FH í …
Jóhann Karl Reynisson fór á kostum í liði FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Línumaðurinn Jóhann Karl Reynisson fór mikinn í liði FH þegar liðið burstaði Fram, 39:26, í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Framarar réðu ekkert við Jóhann Karl en hann skoraði 10 mörk í leiknum.

„Við höfum haft gott tak á Frömurum undanfarin tvö ár og það var áframhald á því í kvöld. Við vorum ákveðnir í að sýna þeim enga miskunn af því að þeir eru hættulegir ef leikirnir eru jafnir. Við náðum að jarða þá strax í byrjun og það má segja að þessi leikur hafi verið góð upphitun fyrir Evrópuleikinn á laugardaginn.

Það var gott að þurfa ekki að fara í einhvern hörkuleik og í staðinn gátum við dreift álaginu, leyft öllum að spila og gefið mönnum hvíld sem hafa verið eitthvað lemstraðir eftir mikla törn að undanförnu,“ sagði Jóhann Karl við mbl.is en eins og áður segir skoraði hann tíu mörk í leiknum.

„Ég hef örugglega ekki skorað tíu mörk í meistaraflokksleik og það var bara gaman. Ég hafði mikið pláss á línunni og strákarnir voru góðir í að finna mig,“ sagði Jóhann Karl sem lék líka stórt hlutverk í varnarleik FH-liðsins eins og áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert