Hve hátt geta þær komið Fjölni?

Andrea Jacobsen í leik með Fjölni gegn ÍBV.
Andrea Jacobsen í leik með Fjölni gegn ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Í haust var Fjölniskonum af flestum spáð falli rakleitt aftur niður í 1. deildina í handbolta. Sú spá getur auðvitað enn ræst en nýliðarnir lönduðu fyrsta sigri sínum á tímabilinu með tilþrifum á Selfossi í síðustu umferð, 36:25, og eru með fjögur stig í næstneðsta sæti af átta sætum Olísdeildarinnar. Fjölnir er stigi á eftir Selfossi og tveimur fyrir ofan Gróttu, í þriggja liða fallbaráttu deildarinnar.

„Við byrjuðum tímabilið svolítið illa en mér finnst vera stígandi í liðinu og við erum allar að leggja okkur hrikalega mikið fram á hverri einustu æfingu til að skila sem mestu af okkur á vellinum. Markmið okkar fyrir tímabilið var að falla ekki og við stefnum áfram á það,“ segir hin 19 ára gamla Andrea Jacobsen, vinstri skytta og algjör lykilmaður í Fjölnisliðinu, en hún lék fyrstu fimm A-landsleiki sína nú í haust.

Hafi einhver haldið að Fjölnir ætti ekkert erindi í Olísdeildina þarf sá hinn sami að hugsa sig betur um. Liðið hefur vissulega fengið skelli gegn bestu liðunum en stóð vel í Haukum og hefur svo náð í fjögur stig gegn keppinautum sínum í fallbaráttunni. Fjölnir vann Gróttu með yfirburðum, 22:12, í Coca Cola-bikarnum í síðasta mánuði og er því einni umferð frá því að komast í „Fjögur fræknu“-úrslitahelgina í Laugardalshöllinni í fyrsta sinn. Sigrinum á Gróttu fylgdu Fjölniskonur svo eftir með fyrrnefndum sigri á Selfossi áður en landsleikjahlé tók við. Næsti leikur er við sjálfa Íslandsmeistarana í Fram á heimavelli Fjölnis í Dalhúsum á laugardag.

„Það er mikill munur á 1. deild og úrvalsdeild og þess vegna eru fyrstu leikirnir í úrvalsdeildinni erfiðir. En við undirbjuggum okkur mjög vel í sumar og mér finnst við vera að uppskera aðeins núna. Við ætluðum ekkert að toppa í byrjun móts, heldur bæta okkur jafnt og þétt og vera alltaf á uppleið á leiktíðinni. Það var rosalega mikið „egóbúst“ fyrir okkur allar að vinna þessa leiki við Gróttu og Selfoss, og sjá að við getum þetta alveg,“ segir Andrea.

Sjá allt viðtalið við Andreu og ítarlega kynningu á kvennaliði Fjölnis í handbolta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert