„Er mjög stoltur“

Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH ræðir við leikmenn sína.
Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH ræðir við leikmenn sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og fram hefur komið missir FH af sínum bestu leikmönnum eftir tímabilið en þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Óðinn Þór Ríkharðsson hafa báðir samið við erlend félög og halda út í atvinnumennskuna næsta sumar.

Gísli Þorgeir hefur samið við þýska stórliðið Kiel og Óðinn Þór fer til GOG eins af toppliðunum í dönsku úrvalsdeildinni.

„Þetta er bara frábært fyrir þessa stráka. Þeir hafa vakið mikla athygli og fá verðskuldað að spreyta sig í atvinnumennsku erlendis. Gísli er að fara til Kiel sem hefur verið eitt besta lið í Evrópu mörg undanfarin ár og Óðinn Þór er að fara í mjög gott danskt lið. Ég tel að hann hafi valið rétt en ég veit að honum stóðu önnur lið til boða að fara í. Ég lít á þetta sem mikla viðurkenningu fyrir allt það frábæra starf sem hefur verið unnið hjá FH. Félagið hefur skapað frábæra umgjörð í kringum liðið þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar og þessir strákar hafa notið góðs af því,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við mbl.is.

„Ég er líka mjög stoltur af þessu sem þjálfari liðsins. Þeir Gísli og Óðinn hafa tekið gríðarlegum framförum undir minni stjórn og ég er sannfærður um að þeir eiga eftir að gera það gott í framtíðinni. Vissulega verður það mikil blóðtaka fyrir okkur að missa þá frá okkur en við munum reyna að fylla í þeirra skörð og förum í þá vinnu eftir áramótin. Það er mikill metnaður hjá FH að halda áfram á sömu braut og við ætlum okkur að vera áfram í fremstu röð,“ sagði Halldór Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert