Fyrsta sinn sem ég væli yfir dómgæslu í fjölmiðlum

Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis.
Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, var hundfúll út í dómgæsluna eftir 32:30-tap fyrir Selfossi í Olís-deild karla í handknattleik í dag.

„Okkur er hent út í tíma og ótíma þar sem ekki var hent út af hinum megin. Þetta er í fyrsta skipti sem ég væli yfir dómgæslu í fjölmiðlum og mér finnst við ekki spila á jafnréttisgrundvelli. Það eru sóknarbrot öðrum megin en ekki hinum megin, brottrekstrar öðrum megin en ekki hinum megin og það bara telur,“ sagði Arnar við mbl.is eftir leik.

Einn leikmaður úr hvoru liði fékk að líta rautt spjald og blátt í kjölfarið, Andri Berg Haraldsson hjá Fjölni og Sverrir Pálsson hjá Selfossi, sem þýðir að brot þeirra verða sérstaklega tekin fyrir hjá aganefnd. Hvað fannst Arnari um spjöldin?

„Ég sá þetta ekki með Andra og ekki nógu vel með Sverri, en þegar einhverjum er hrint í loftinu er það nokkuð augljóst,“ sagði Arnar og vísaði til brots Sverris sem virtist krækja í Kristján Örn Kristjánsson þegar hann stökk inn í teiginn. Nánar um dómarana, Sigurgeir Má Sigurgeirsson og Ægi Örn Sigurgeirsson, sagði Arnar:

„Þetta eru góðir strákar en mér fannst þeir ekki ráða við þennan leik. Við hefðum samt getað gert betur, klikkuðum á tveimur vítum og fengum á okkur 4-5 mörk í autt markið. Það er ekki dómurunum að kenna, en mér fannst við ekki fá sanngirni. Mér fannst við spila nógu vel til að vinna og það er grátlegt að ná því ekki,“ sagði Arnar.

Fjölnir er á botninum með fimm stig, hvernig metur hann stöðuna?

„Við vorum með frumkvæðið í þessum leik svo ég er mjög ánægður með strákana, þeir gáfu allt í þetta og mér finnst við vera að bæta okkur. En á meðan við fáum ekki stigin í hús þá telur það lítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert