Mørk fór á kostum í sigri Norðmanna

Nora Mørk fagnar í kvöld.
Nora Mørk fagnar í kvöld. AFP

Norska kvennalandsliðið í handbolta, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, tryggði sér í sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Þýskalandi eftir 31:23-sigur á Spánverjum í 16-liða úrslitunum í kvöld. 

Norðmenn voru yfir allan leikinn og var sigurinn aldrei í hættu hjá lærimeyjum Þóris, sem mættu ákveðnar til leiks eftir tapið gegn Svíþjóð í síðasta leik riðlakeppninnar. 

Nora Mørk fór á kostum fyrir Noreg og skoraði 11 mörk. Stine Bredal Oftedal gerði sex og Veronica Kristiansen skoraði fjögur. Carmen Martin var markahæst í spænska liðinu með sex mörk. 

Noregur mætir Hollandi í átta liða úrslitum. Holland lagði Japan, 26:24, í framlengdum leik í kvöld. Holland og Noregur mættust í úrslitaleikjum á EM í Svíþjóð á síðasta ári og HM í Danmörku árið á undan, en í bæði skiptin hafði Noregur betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert