Rússland og Tékkland í átta liða úrslit

Leikur Rússa og Suður-Kóreu var æsispennandi.
Leikur Rússa og Suður-Kóreu var æsispennandi. AFP

Rússland og Tékkland eru komin áfram í átta liða úrslit heimsmeistaramóts kvenna í handbolta eftir sigra í æsispennandi leikjum í 16-liða úrslitunum í dag. Tékkland hafði betur gegn Rúmeníu, 28:27, og Rússland vann Suður-Kóreu, 36:35, eftir framlengingu. Rússland og Tékkland eigast við í átta liða úrslitunum. 

Leikur Rúmena og Tékka var jafn frá upphafi, en Rúmenar voru með 25:22-forystu þegar skammt var eftir. Þá skoruðu Tékkar fjögur mörk í röð og komust í 26:25. Eftir æsispennandi lokamínútur voru það svo Tékkar reyndust sterkari. 

Rússland var yfir stóran hluta leiks gegn Suður-Kóreu, en Asíuþjóðin neitaði að gefast upp, þrátt fyrir að staðan hafi verið 23:18 þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Suður-Kórea minnkaði muninn jafnt og þétt og var staðan 30:30 þegar leiktíminn rann út. Í framlengingunni voru Rússarnir ögn sterkari og tryggðu sér nauman sigur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert