Stefán oft með einhverja sálfræði

Elísabet Gunnarsdóttir skorar eitt af átta mörkum sínum í kvöld.
Elísabet Gunnarsdóttir skorar eitt af átta mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/Hari

Elísabet Gunnarsdóttir skoraði átta mörk í kvöld er Fram vann Selfoss, 28:20, í 10. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik. Selfyssingar voru sterkari í byrjun leiks og voru einu marki yfir eftir fyrri hálfleikinn en Framarar hófu þann síðari af krafti, skoruðu fyrstu fimm mörk hans og gáfu það forskot aldrei eftir. Hvað breyttist?

„Ágætis hálfleiksræða hjá Stefáni, honum fannst við ekki vera spila vel og hann kveikti aðeins í okkur. Seinni hálfleikurinn var bara hálfgerð einstefna, við keyrum vel yfir þær og byrjum á að skora fimm í röð, það skilaði þessum sigri.“

„Við erum reynslumiklir leikmenn og vissum upp á okkur sökina, við héldum þessu jafnt í fyrri hálfleik en við vorum kannski að mæta full væru kærar eftir góðan sigur á móti Fjölni. Það gerist stundum að þú átt góðan leik og ert á hælunum í þeim næsta en við náðum svo að sýna okkar rétta andlit.“

Eftir nokkuð stirða byrjun hafa Íslandsmeistararnir unnið báða leiki sína eftir landsleikjahlé og segir Elísabet vera stíganda í spilamennskunni.

„Við erum búin að æfa vel og hlaupa mikið, við vorum kannski ekki alveg á sama stað og hin liðin til að byrja með en það skiptir ekki öllu máli hvað gerist í fyrstu leikjunum heldur hvað gerist í lokin. Við erum að fá leikmenn til baka núna eftir erfið meiðsli og sjálfstraustið er komið aftur. Við getum vonandi haldið þessum dampi.“

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, hefur áður látið eftir sér að hann telji liðið ekki nógu gott til að verja Íslandsmeistaratitilinn, hvað finnst Elísabetu um það?

„Þeir sem þekkja Stefán vita að hann er oft með einhverja sálfræði en auðvitað er ég ekki sammála því. Ég held að þetta sé eitthvað aðeins til að kveikja í okkur, það væri óeðlilegt fyrir okkur, sem afreksmenn í handbolta, að vera sammála þessu.“

Að lokum segist Elísabet vera hægt og rólega farin að finna sitt besta form á nýjan leik.

„Þetta er að koma hjá mér, ég er búin að vera hálf róleg eftir að við byrjuðum í haust en maður er orðinn aðeins eldri og þá tekur þetta meiri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert