Öflugt lið þrátt fyrir forföll landsliðskvenna

Þórey Rósa Stefánsdóttir kom heim úr atvinnumennsku og leikur með …
Þórey Rósa Stefánsdóttir kom heim úr atvinnumennsku og leikur með Fram í vetur. mbl.is/Golli

Keppnistímabilið hjá ríkjandi Íslandsmeisturum Fram í handknattleik hefur æxlast á annan hátt en útlit var fyrir. Svo virtist sem liðið yrði ógnarsterkt þegar öflugasti leikmaður landsliðsins síðustu árin, Karen Knútsdóttir, ákvað að snúa heim úr atvinnumennsku í Frakklandi.

Ekki nóg með að Karen kæmi heim heldur kom Þórey Rósa Stefánsdóttir einnig heim úr atvinnumennsku en hún hefur verið hægri hornamaður landsliðsins í mörg ár. Báðar léku þær með Fram áður en þær héldu utan en Þórey kemur þó upphaflega úr ÍR.

Ýmislegt hefur þó komið upp á hjá meisturunum sem fór með væntingavísitöluna niður á við í Safamýrinni. Karen sleit hásin í byrjun september og óvíst að hún muni koma við sögu á keppnistímabilinu. Besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra, Steinunn Björnsdóttir, er ófrísk og á von á sér snemma á nýju ári. Steinunn er fyrirliði Fram og liðinu geysilega mikilvæg, ekki síst í vörninni, fyrir utan leiðtogahæfnina.

Fjórum stigum á eftir Val

Eins og sakir standa er Fram í 3. sæti eftir tíu leiki. Hefur liðið þó ekki tapað nema tveimur í deildinni en gert tvö jafntefli og unnið sex leiki. Meistararnir eru fjórum stigum á eftir toppliði Vals.

Þótt forföllin séu nokkur þá er Fram engu að síður með hörkuleikmenn eins og áður. Leikstjórnandinn Sigurbjörg Jóhannsdóttir hefur marga fjöruna sopið og þekkir leik Fram út og inn. Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir getur skilað mörkum upp úr engu af löngu færi og Hildur Þorgeirsdóttir er einnig öflug skytta hægra megin og öðlaðist góða reynslu í Þýskalandi. Ógnunin frá skyttunum er því alla jafna mjög góð.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er ítarlega fjallað um kvennalið Fram í handknattleik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert