Kallinn í gula búningnum var erfiður

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, ver eitt skota sinn í …
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, ver eitt skota sinn í kvöld frá Kristjáni Orra Jóhannssyni, ÍR-ingi. mbl.is/Hari

„Kallinn í gula búningnum reynist okkur erfiður,“ sagði Þrándur Gíslason Roth, leikmaður ÍR, og átti við Björgvin Pál Gústavsson, markvörð Hauka, eftir tveggja marka tap ÍR-inga fyrir Haukum, 25:23, í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla á Ásvöllum í kvöld.

Björgvin Páll fór á kostum í leiknum og varði 20 skot og sá til þess að eftir upphafsmínútur leiksins þá komust ÍR-ingar aldrei aftur yfir í leiknum. Þeim tókst að minnka muninn nokkrum sinnum niður í eitt mark en nær komust þeir ekki.

„Annars fannst mér við leika mjög vel. Okkur tókst að sundurspila vörn Hauka oft og tíðum auk þess sem við fengum ekki nema 12 mörk á okkur í fyrri hálfleik og 13 í þeim síðari sem sýnir að vörnin var góð hjá okkur auk þess sem Grétar Ari Guðjónsson var frábær í markinu,“ sagði Þrándur sem var aðsópsmikill í varnarleik ÍR og var einnig áberandi sóknarleiknum  þar sem hann skoraði m.a. fimm mörk.

„Við vorum betri að mínu mati og hefðum átt að vera með yfirhöndina en Björgvin Páll sá til þess að svo var ekki.

Þetta var hörkuleikur frá upphafi til enda. Þetta var hörkuleikur og við gáfumst aldrei upp.  Mér fannst við eiga góðan leik eins og Björgvin Páll í marki Hauka,“ sagði Þrándur Gíslason Roth leikmaður ÍR með bros á vör þrátt fyrir að liðið hans sé úr leik í bikarkeppninni þetta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert