„Boltarnir vildu ekki inn“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV,.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV,. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

ÍBV beið lægri hlut gegn Fram í Vestmannaeyjum í dag þegar síðasta umferð Olís-deildar kvenna fyrir jól fór fram. Leiknum lauk 25:30 en einu sinni var staðan jöfn, það var í 0:0.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir var ekki ánægð með leik sinna kvenna og voru margir leikmenn sem spiluðu alls ekki sinn besta leik.

„Ég var bjartsýn í hálfleik því í flestum okkar leikjum gegn Fram eru þær miklu betri í fyrri hálfleik, svo höfum við náð að vinna þær í seinni hálfleik, sérstaklega hérna á heimavelli,“ sagði Hrafnhildur, þjálfari ÍBV eftir leik.

„Þetta leit vel út eftir nokkrar mínútur í seinni hálfleik þegar við vorum búin að minnka niður í eitt mark. Það voru margar sem áttu ekki sinn dag í dag, mér fannst allar vera að reyna, boltarnir vildu ekki inn. Eins og í fyrri hálfleik þá fórum við með rosalega mikið af dauðafærum og í seinni hálfleik skutum við mikið fyrir utan, en boltinn vildi ekki inn.“

Þar það aðallega reynslan í Fram-liðinu sem skildi liðin að?

„Nei ég held ekki, þetta hafa yfirleitt verið hörkuskemmtilegir leikir á milli þessara liða, þetta var örugglega með leiðinlegri leikjum á milli þessara liða, það er yfirleitt brjálaður hraði, mikið af mörkum og brjáluð spenna. En eins og þú segir þá var þetta aldrei spennandi, það er mest leiðinlegt við þetta að hafa ekki gert þetta að leik.“

Hrafnhildur og Stefán Arnarson, þjálfari Fram, þekkjast vel og setur það kannski auka krydd í viðureignir liðanna.

„Já við þekkjumst mjög vel og það er ógeðslega gaman að vinna hann, það er jafnleiðinlegt að tapa fyrir honum.“

Nú kemur jólapása í deildinni, mun ÍBV liðið nýta hana í æfingar eða gefa frí?

„Við getum ekki nýtt hana í æfingar, það er hver að æfa fyrir sig. Liðslega séð þá æfum við út þessa viku og síðan ekki aftur með allt liðið fyrr en 8. janúar. Það verður langt frí hjá öllu liðinu saman í sjálfu sér. Þegar maður býr í Vestmannaeyjum og er með útlendinga sem vilja allir komast heim um jólin, svo tekur landsliðið við eftir áramót, þar eru landsliðæfingar og við eigum nokkrar þar. Það vinnur margt á móti okkur yfir jólin, vonandi verða stelpurnar ábyrgar og hugsa um sjálfa sig.“

ÍBV missir þriðja sætið til Fram með tapinu og eru því að búa til harða keppni fyrir Stjörnuna um 4. sætið.

„Það er næsti leikur, Stjarnan - ÍBV, það verður svaka leikur. Við vissum þetta allan tímann að þessi fimm lið myndu berjast um þetta, það verður barist um þetta síðasta sæti þangað til í lokaumferðinni, alveg klárlega,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert