Afturelding með tvö stig í fríið

Elvar Ásgeirsson og félagar í Aftureldingu gerðu góða ferð í …
Elvar Ásgeirsson og félagar í Aftureldingu gerðu góða ferð í Garðabæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding hrósaði sigri í síðasta leik sínum á þessu ári þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Afturelding hrósaði þriggja marka sigri 30:27 og jafnaði Stjörnuna um leið að stigum um miðja deild.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en um miðjan síðari hálfleikinn náðu Mosfellingar góðum kafla. Þeir skoruðu fjögur mörk í röð og alls sjö gegn tveimur á þessum kafla og náðu frumkvæðinu í leiknum. Mestur var munurinn fimm mörk fyrir hlé, en í hálfleik var Afturelding með fjögurra marka forskot 15:11.

Stjarnan virtist ætla að bíta hressilega frá sér í upphafi síðari hálfleik, en fljótlega fór loftið að leka úr þeirri blöðru. Mosfellingar brotnuðu hvergi og hleyptu Garðbæingum ekki inn í leikinn að ráði. En þegar tíu mínútur voru eftir skoraði Stjarnan þrjú mörk í röð og minnkaði muninn í þrjú mörk 24:21, en Mosfellingar héldu haus.

Stjarnan leitaði frekari lausna en það var árangurslítið og þegar yfir lauk var munurinn þrjú mörk og sigur Aftureldingar í höfn 30:27. Mikk Pinnonen var markahæstur hjá Mosfellingum með sjö mörk en hjá Stjörnunni skoraði Aron Dagur Pálsson 9 mörk.

Þetta var síðasti leikur Mosfellinga þar til í lok janúar en Stjarnan mætir ÍBV í lokaleik ársins á fimmtudag. Liðin eru nú jöfn með 13 stig í deildinni.

Stjarnan 27:30 Afturelding opna loka
60. mín. Sveinbjörn Pétursson (Stjarnan) varði skot En Afturelding heldur boltanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert