Verðum að leika betri vörn

Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis og leikmenn.
Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis og leikmenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Rétt eftir miðjan fyrri hálfleik þá skoruðu Valsmenn fimm eða sex mörk í röð á sama tíma og okkur brást bogalistinn í opnum færum en náðum að koma til baka. Síðari hálfleik byrjar eins þar sem við förum illa að ráði okkar meðan Valsmenn skora og skora. En það var karakter að koma til baka eftir að hafa verið átta eða níu mörkum undir og ná að minnka muninn í þrjú mörk í lokin. Það hefði verið svo auðvelt að tapa með 15 marka mun eins og staðan var orðin á kafla,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis eftir þriggja marka tap fyrir Íslandsmeisturum Vals, 34:31, í Olísdeild karla í handknattleik í Valshöllinni í kvöld.

„Valsmenn refsa fyrir öll okkar mistök. Þannig byggðu þeir upp sitt forskot sem við náðum aldrei að brúa,“ sagði Arnar.  „Valsliðið er bara mjög gott. Við verðum að læra af svo liðum.“

Fjölnir situr á botninum með fimm stig þegar 14 umferðum af 22 er lokið. Framundan er hlé á deildarkeppninni fram í febrúar. Arnar segir að menn verði að leggja hart að sér á næstu vikum. „Við verðum að leysa úr þeim vanda okkar sem felst í að við leikum ekki nógu góða vörn. Það er alveg ljóst. Vissulega getum við lagfært eitt og annað í okkar leik en fyrst og síðast verðum við að leika mikið betri vörn en við höfum lengst af gert á þessu tímabili,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert