Við erum nánast með 3. flokk að spila

Alfreð Finnsson ræðir við sitt lið í kvöld.
Alfreð Finnsson ræðir við sitt lið í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

„Það er hellings vinna fram undan hjá okkur, það er ljóst," sagði Alfreð Finnsson, þjálfari Gróttu í samtali við mbl.is í kvöld. Grótta varð að gera sér að góðu að tapa gegn Stjörnunni á útivelli, 37:23 í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. 

„Þetta er stórt tap og við köstum þessu auðveldlega frá okkur í seinni hálfleik eftir ágætan fyrri hálfleik. Það er gömul saga og ný að við förum að flýta okkur í fyrri hálfleik og missum þær fram úr okkur og seinni hálfleikur var formsatriði hjá Stjörnunni því við gerðum of mikið af mistökum til að vera inni í þessum leik."

Grótta er á botni deildarinnar, án sigurs eftir 12 leiki. Alfreð er með útskýringar á því. 

„Við erum að reyna, við erum í uppbyggingaferli. Við erum nánast með 3. flokk að spila með aðstoð 2-3 leikmanna. Þetta er mikið af heimastelpum sem er kastað í djúpu laugina og þeim er vorkunn. Við höfum verið að missa í óléttur og það vantar sex leikmenn frá því í fyrra. Við erum að reyna að laga okkar leik."

Lovísa Thompson er langbesti leikmaður Gróttu í dag og hefur hún verið tekin úr umferð á löngum köflum í síðustu leikjum. Gróttu gengur illa að finna lausnir í sókninni, án hennar. 

„Auðvitað er það erfitt og hún er með gríðarlega mikla ábyrgð í þessu liði þó hún sé enn mjög ung. Mér fannst við leysa það vel í fyrri hálfleik en það gekk ekki eins vel í seinni hálfleik. Það er eðlilegt að liðin gera þetta, en við þurfum að halda áfram að vinna með þetta."

Slavica Mrkik spilaði ekkert í kvöld og viðurkennir Alfreð að hann sé ekki sáttur við þá makedónsku. 

„Ég er ekki búinn að vera sáttur við framlagið hennar í undanförnum leikjum. Ég vil fá meira frá henni," sagði Alfreð að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert