Maður reynir aðeins að æsa í þessu

Atli Már Báruson átti fínan leik í kvöld.
Atli Már Báruson átti fínan leik í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

„Miðað við orkuna og vinnuna sem fór í þennan leik þá er vont að klúðra þessu og grautfúlt að fá þetta mark á sig þegar ein sekúnda er eftir," sagði Atli Már Báruson, leikmaður Hauka í samtali við mbl.is eftir 30:29-tap fyrir FH í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmark FH í blálokin. 

Haukar komust sex mörkum yfir snemma í síðari hálfleik, en FH tókst fljótlega að jafna og komast yfir. 

„Okkur leið vel í byrjun seinni hálfleiks en þegar leið á fundu FH-ingar lausnir og við vorum lengi að bregðast við því og koma með nýtt inn í þetta. Restin af leiknum var eitt mark til eða frá eins og FH-Haukar eiga að vera. Við hefðum auðvitað viljað halda þessu í sex mörkum eins og þetta var komið í."

Atli viðurkennir að það er orðið langsótt hjá Haukum að verða deildarmeistarar. 

„Þetta eru orðin 6-7 stig á okkur núna og nú þurfum við að einbeita okkur að því að komast eins ofarlega í töflunni og við getum. Við eigum lítinn séns í efsta sætið."

Atli Már fékk högg í andlitið í fyrri hálfleik og gaf til kynna að Gísli Þorgeir Kristjánsson hafi gefið sér olnbogaskot í andlitið. Gísli lá síðan í síðari hálfleik eftir viðskipti sín við Atla. 

„Hann snéri baki í mig og fór óvart með höndina í mig. Maður reynir aðeins að æsa í þessu, en þetta var óviljaverk. Hann lenti á mér aðeins seinna, sem var líka óviljaverk, svo það er 1:1 í þessu," sagði Atli að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert