„Þetta var algjört grín“

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

„Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég sá rauða spjaldið fara á loft.  Þetta var algjört grín og ég veit ekki til þess að ég hafi fengið beint rautt spjald áður á mínum ferli,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður Barcelona, við mbl.is.

Aron vann sinn fyrsta bikar með Barcelona í gær þegar liðið bar sigurorð af Ademar León í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar í handknattleik sem fram fór á heimavelli Ademar León. Það var stutt gaman hjá Aroni. Hann hóf leikinn á bekknum en kom inn á eftir 15 mínútna leik. Sjö mínútum síðar var hann svo rekinn upp í stúku.

„Leikmaður Ademar León fékk boltann á miðjum vellinum og byrjaði að keyra í áttina að markinu. Ég og Dika Mem vorum til varnar. Leikmaðurinn stökk upp á einhverjum ellefu metrum. Dika kom aðeins við hann og ég fór upp í blokkina. Ég kom ekki við hann en hann datt eitthvað illa og ég ætlaði að fara keyra fram í hraðaupphlaup þegar dómararnir stoppuðu leikinn. Þeir hugsuðu sig um í 10-15 sekúndur og ákváðu síðan að gefa mér rautt spjald.

Ég hélt fyrst að þeir væru að gefa einhverjum öðrum en mér rauða spjaldið en svo reyndist ekki og þetta var því stutt gaman hjá mér. Þeir dæmdu á eitthvað sem þeir sáu ekki og þeir tóku af mér bikarúrslitaleikinn sem var ákaflega fúlt og ég var alveg miður mín,“ sagði Aron Pálmarsson.

Aron Pálmarsson með treyju Barcelona.
Aron Pálmarsson með treyju Barcelona. Ljósmynd/Barcelona

Hefur tekið tíma að aðlagast liðinu

„En það var gaman að vinna fyrsta bikarinn með liðinu og við gerðum það sem við ætluðum að gera,“ sagði Aron, sem segist hægt og bítandi vera að komast inn í hlutina hjá Katalóníuliðinu.

„Það hefur tekið sinn tíma að aðlagast liðinu og breyttu umhverfi. Ég hef ekki náð fram mínu besta fram með liðinu enn sem komið er sem hefur farið svolítið í taugarnar á mér en þessar fyrstu vikur hafa eiginlega verið mitt undirbúningstímabil og kannski eðlilegt að það taki einhvern tíma til að stilla saman strengina við liðsfélagana. Ég mæti nýr og ferskur til leiks með Barcelona eftir EM,“ sagði Aron, sem kemur til landsins á morgun og hefur undirbúninginn með íslenska landsliðinu fyrir Evrópumótið sem fram fer í Króatíu í næsta mánuði.

Aron og félagar tróna á toppi spænsku 1. deildarinnar þar sem þeir hafa 10 stiga forskot á næsta lið en Barcelona hefur unnið meistaratitill sjö ár í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert