Var eftirlitsmaðurinn drukkinn?

Handbolti.
Handbolti. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Bosníumenn eru allt annað en sáttir við ákvörðun Handknattleikssambands Evrópu, EHF, að úrskurða landsliði Sviss sigur á landsliði Bosníu, 10:0, í seinni leik þjóðanna í forkeppni heimsmeistaramótsins vegna þess að Bosnía tefldi fram leikmanni sem var ekki á skýrslu.

Landsliðsþjálfari Bosníu, Bilal Suman, hefur gengið svo langt að saka eftirlitsmann EHF á leiknum um að hafa verið ölvaður og að það sé eftirlitsmannsins sök að nafn umrædds leikmanns hafi ekki verið að finna á leikskýrslu.

Bosnía vann fyrrgreindan leik, 21:15, og tryggði sér efsta sæti riðilsins. Hins vegar kom í ljós að nafn eins leikmanns landsliðs Bosníu sem tók þátt í leiknum og skoraði meðal annars mark, Tomislav Nuic, var ekki að finna á leikskýrslu. Forráðamenn landsliðs Sviss kærðu framkvæmd leiksins til EHF sem úrskurðaði á dögunum Sviss sigur í leiknum, 10:0. Fyrir vikið mætir Sviss landsliði Noregs í umspilsleikjum um HM-sæti í júní en ekki landsliði Bosníu.

Suman landsliðsþjálfari er æfur vegna úrskurðar EHF og er ómyrkur í máli svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hann segir að nafn Nuic hafi verið á lista sem skilað var inn til eftirlitsmanns sólarhring fyrir leik og að mistökin liggi hjá eftirlitsmanninum, Slóvenanum Darko Repensek. Hann hafi mætt ölvaður á leikstað skömmu áður en leikurinn hófst. Hann hafi ekki getað fyllt úr leikskýrsluna né farið yfir hana fyrir leik. Þess í stað hafi starfsmaður handknattleikssambands Bosníu orðið að vinna verk eftirlitsmannsins á elleftu stundu, nánast á meðan þjóðsöngvar Bosníu og Sviss hljómuðu í keppnishöllinni rétt áður en flautað var til leiks.

„Ég vil gjarnan vita hvar hann [Darko Repensek] var á milli klukkan 11 og 19 á leikdegi og á hvaða veitingastað hann gleymdi að setja nafn Nuic á leikskýrsluna. Hinn spillti Repensek var drukkinn þegar hann kom í keppnishöllina og var ekki í stakk búinn til að undirbúa leikskýrsluna. Þess vegna varð starfsmaður handknattleikssambands Bosníu að vinna það verk meðan þjóðsöngvarnir hljómuðu í keppnishöllinni,“ segir Suman og skoraði á utanríkisráðherra Bosníu að blanda sér í málið og skrifa bréf til EHF. „Vegna þess að Slóveninn hefur ráðist á þjóð okkar. Einhver verður að afhjúpa mafíuna,“ segir Suman og bætir við að hann og stjórnendur handknattleikssambands Bosníu hafi næg sönnunargögn máli sínu til stuðnings.

Suman lætur ekki þar við sitja heldur segir að sem dómari á sínum tíma hafi Repensek legið undir ámæli um að hafa átt þátt í að hagræða úrslitum kappleiks í Meistaradeildinni ásamt félaga sínum leiktíðina 2008/2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert