Tveir í agabanni hjá ÍBV og þriðji á sjúkralista

Gleði leikmanna ÍBV yfir sigrinum í Coca Cola-bikarnum um síðustu …
Gleði leikmanna ÍBV yfir sigrinum í Coca Cola-bikarnum um síðustu helgi hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. mbl.is/Hari

Þrír sterkir leikmenn ÍBV verða ekki með liðinu í kvöld þegar ÍBV tekur á móti ÍR í Olísdeild karla í handknattleik í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Tveir þeirra, Róbert Aron Hostert og Sigurbergur Sveinsson, eru í agabanni samkvæmt heimildum mbl.is.

Sá þriðji, Theodór Sigurbjörnsson, er frá keppni vegna þess að hann rotaðist þegar skarst í odda milli hans og Sigurðar Bragasonar, fyrrverandi aðstoðarþjálfara ÍBV, í gleðskap eftir að ÍBV varð bikarmeistari í handknattleik á síðasta laugardag.

Samkvæmt heimildum mbl.is gengu Sigurbergur og Róbert of hratt um gleðinnar dyr í fögnuði eftir sigur ÍBV í bikarkeppninni. Gleðskapur þeirra teygðist úr öllu hófi og þess vegna mun þjálfari ÍBV, Arnar Pétursson, hafa tekið þá ákvörðun að þeir leiki ekki með ÍBV-liðinu í kvöld á heimavelli gegn ÍR.

Óljóst er, samkvæmt heimildum mbl.is, hvenær Theodór getur leikið með ÍBV á nýjan leik en ljóst er að minnsta kosti að hann verður ekki með liðinu í kvöld og heldur ekki gegn Stjörnunni á sunnudaginn. Heilsa Theodórs verður sett í öndvegi og ekki teflt á tvær hættur. Hann er undir eftirliti læknis sem mun met hvenær Theodóri verður óhætt að leika handknattleik að nýju.

Auk leiksins í kvöld og á sunnudaginn á ÍBV leik við Fram í lokaumferð Olísdeildarinnar eftir viku. Eftir það taka við viðureignir í Áskorendakeppni Evrópu við Krasnodar um aðra helgi og einnig laugardaginn fyrir páska.

Of snemmt er að segja til um hvort höfuðhögg Theodórs mun hafa áhrif á þátttöku hans í æfingum íslenska landsliðsins sem hefjast á öðrum degi páska, mánudaginn 2.apríl. Theodór var valinn í 20 manna landsliðshóp Guðmundar Þórðar Guðmundssonar sem tilkynntur var í dag.

Flautað verður til leiks ÍBV og ÍR í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 20 í kvöld. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert