Ísland gat ekki fagnað sæti á EM

Aron Pálmarsson með boltann gegn Grikkjum.
Aron Pálmarsson með boltann gegn Grikkjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik náði ekki að gulltryggja sæti sitt í lokakeppni Evrópumótsins þegar liðið heimsótti Grikki í undankeppninni í Kozani í kvöld. Íslenska liðið jafnaði metin í blálokin, 28:28, en sigur hefði tryggt Íslandi sæti á EM 2020. Ísland getur hins vegar tryggt sætið gegn Tyrkjum í Laugardalshöll á sunnudag.

Íslenska liðið var með frumkvæðið í fyrri hálfleik en náði aldrei að hrista Grikkina neitt af sér. Mestur var munurinn fjögur mörk, 10:6. Grikkir náðu hins vegar að svara fyrir sig en Ísland var engu að síður þremur mörkum yfir í hálfleik 15:12.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn hreint afleitlega. Grikkir skoruðu fjögur mörk í röð og Ísland komst ekki á blað fyrr en eftir rúmar fimm mínútur í síðari hálfleik. Ísland vann upp tveggja marka forskot en fór illa með mörg færi á línunni og Grikkir náðu frumkvæðinu í leiknum, skoruðu fimm mörk gegn einu og voru með yfirhöndina.

Allt var í járnum á lokamínútunum en Grikkir náðu tveggja marka forskoti 27:25 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Ísland fór í maður á mann vörn undir lokin, vann boltann og Arnór Þór Gunnarsson jafnaði metin 28:28 þegar tvær sekúndur voru eftir og tryggði jafntefli.

Arnór Þór var markahæstur hjá Íslandi með níu mörk, en liðið er nú með sex stig í riðlinum. Norður-Makedónía er á toppnum með sjö stig og hefur þegar tryggt sér EM-sæti. Tyrkir hafa fjögur stig. Ísland og Tyrkland mætast í Höllinni á sunnudagskvöld og Ísland má tapa þeim leik með allt að tíu marka mun án þess að missa annað sætið í hendur Tyrkja.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Grikkland 28:28 Ísland opna loka
60. mín. Petros Boukovinas (Grikkland ) varði skot Ein mínúta eftir. Ja hérna hér.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert