Bakslag gegn Ungverjum

Ungverjaland vann Ísland 24:18 í lokaumferð E-riðils á Evrópumóti karla í handknattleik í Malmö í dag. Ungverjar fara með tvö stig í milliriðil en Íslendingar ekkert. Heims- og ólympíumeistarar Dana eru úr leik í mótinu þótt þeir eigi einn leik eftir. 

Ísland lauk keppni í riðlinum með 4 stig. Ungverjaland fékk 5 stig en Danmörk og Rússland leika kl. 19.30. 

Ísland var yfir 12:9 að loknum fyrri hálfleik en í þeim síðari hrökk allt í baklás. Sérstaklega í sókninni. Ungverjaland komst yfir 18:17 á 48. mínútu og liðið var miklu sterkara á lokakaflanum eins og úrslitin sýna. 

Fyrri hálfleikurinn var svolítið sveiflukenndur en þá lék íslenska liðið vel. Ungverjar byrjuðu reyndar miklu betur og komust í 3:0 en okkar menn svöruðu því með sex mörkum í röð.  Ungverjar náðu ekki aftur að komast yfir fyrr en á 48. mínútu eins og áður var minnst á. Ísland komst í 12:7 en Ungverjarnir löguðu aðeins stöðuna fyrir hlé. Líklega var það dýrmætt fyrir þá þegar uppi var staðið. 

Í fyrri hálfleik var vörn íslenska liðsins virkilega góð. Tókst mönnum þá oft að drepa sóknir Ungverja í fæðingu með því að brjóta á þeim. Erfitt er að eiga við ungversku leikmennina í návígum þar sem þeir eru hávaxnari og þyngri en okkar menn. En okkar mönnum tókst að komast ágætlega í gegnum það í fyrri háfleik. Í sókninni var Alexander mjög áræðinn og vel gekk að opna fyrir Guðjón Val sem skoraði þá fjögur mörk. Sóknin var reyndar svolítið hæg hjá íslenska liðinu en staðan að loknum fyrri hálfleik var ekkert til að kvarta yfir. Þvert á móti. 

Skoruðu sex mörk í síðari hálfleik

Sóknir Ungverjana gengur miklu betur í síðari hálfleik. Þeir náðu að koma boltanum inn á línutröllið Bence Bánhidi sem skoraði 8 mörk af 24. Enginn í íslenska liðinu getur haldið honum ef samherjarnir koma boltanum á hann. Þegar leið á leikinn opnuðust fleiri leiðir fyrir Ungverja í sókninni og þeir skoruðu fimmtán mörk í síðari hálfleik. Markvarslan hafði verið fín í fyrri hálfleik en datt niður í síðari hálfleik en þá fengu báðir markverðir Íslands að spreyta sig. 

Sóknarleikur Íslands hrundi í síðari hálfleik enda skoraði íslenska liðið aðeins sex mörk í síðari hálfleik. Er það með nokkrum ólíkindum. Athyglisvert var að engum íslenskum leikmanni tókst nægilega vel upp í sókn í síðari hálfleik. Skipti ekki máli hvort Aron, Alexander, Guðjón eða einhver annar reyndi fyrir sér. Hlutirnir gengu ekki upp. 

Stór hindrun var markvörðurinn Roland Mikler sem varði alls 16 skot í leiknum og þar af þrjú vítaköst. Markvörður sem staðsetur sig vel og virðist af þeim sökum stundum hafa lítið fyrir því að verja. Alls brenndu Íslendingarnir af fjórum vítaköstum en Székely varði einnig eitt. Arnór, Bjarki og Viggó tóku vítin en Arnór skoraði einu sinni eftir að hafa náð frákastinu. 

Þegar uppi var staðið þá tapaði Ísland 18:24 í leik þar sem liðið var yfir 12:7. Sýnir það einna best breytingarnar sem urðu á leik liðanna í leiknum. Eftir tvo mjög góða leiki hjá íslenska liðinu í upphafi móts kom nú bakslag og verður forvitnilegt að sjá hvernig liðið bregst við því í næsta leik á föstudag þegar Ísland mætir Slóveníu. 

Ísland fer því án stiga í milliriðil og er tveimur stigum á eftir Ungverjalandi sem er eins og Ísland að keppa að því að komast í undankeppni Ólympíuleikanna. Tvö sæti eru laus fyrir Evrópuþjóðir í undankeppni ÓL eins og fram hefur komið. 

Ísland 18:24 Ungverjaland opna loka
60. mín. Bence Nagy (Ungverjaland) skýtur framhjá
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert