„Hér er spilaður mjög hraður handbolti“

Martin Nagy á vaktinni.
Martin Nagy á vaktinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungverski markvörðurinn Martin Nagy hjá Val segir að Olís-deildin í handknattleik geti verið góður stökkpallur fyrir þá sem standa sig vel yfir í stærri deildir í Evrópu. 

„Deildin er mjög góð. Hér er spilaður mjög hraður handbolti og í deildinni eru margir góðir leikmenn. Enda fara margir góðir leikmenn úr íslensku deildinni til sterkra félagsliða í Evrópu. Íslenska deildin er því fínn vettvangur til að þróast sem leikmaður og öðlast reynslu,“ segir Nagy og hann er ánægður með andrúmsloftið í kringum leikina í úrslitakeppninni sem ná mun hámarki hjá körlunum annað kvöld þegar Haukar og Valur mætast í síðari úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. 

„Andrúmsloftið er magnað. Ég elska stuðningsmennina okkar og þeir standa sig vel. Vonandi geta þeir fjölmennt á leikinn í Hafnarfirði og hvatt okkur áfram. Vonandi verður ástæða til að fagna með þeim þegar úrslitin liggja fyrir.“

Martin Nagy kemur út á móti Darra Aronssyni í fyrri …
Martin Nagy kemur út á móti Darra Aronssyni í fyrri úrslitaleiknum á Hlíðarenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Martin Nagy stóð sig virkilega vel í marki Vals í fyrri úrslitaleiknum gegn Haukum og átti sinn þátt í sigri Vals 32:29. Lagði hann mikla vinnu í að stúdera Haukana? „Ég þurfti tíma í vetur til að kynnast leikmönnum í deildinni. Núorðið þekki ég andstæðingana vel og það hjálpar auðvitað. Ég á eftir að greina leikinn gegn Haukum og sjá hvar mér urðu á mistök og hvar mér tókst vel upp. Svo reynir maður að gera enn betur í næsta leik,“ segir Nagy en mbl.is ræddi við hann á Hlíðarenda að loknum fyrri leiknum. Ungverjinn var ánægður með vörnina fyrir framan sig í leiknum. 

„Sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá var vörnin framúrskarandi á köflum. Í síðari hálfleik var meira um að Haukar fengju marktækifæri af línunni,“ segir Nagy en staðan var 19:14 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik. 

Alexander Júlíusson og Þorgils Jón Svölu Baldursson eru með stór …
Alexander Júlíusson og Þorgils Jón Svölu Baldursson eru með stór hlutverk fyrir framan Martin Nagy i vörn Vals. Hér glíma þeir við Heimi Óli Heimisson í leiknum í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar úrslitarimman er hálfnuð er Valur með þriggja marka forskot eins og áður segir. „Þetta eru hörkuleikir í úrslitakeppninni. Menn berjast eins og skylmingaþrælar. Síðasti leikurinn verður erfiður en menn munu berjast þar til yfir lýkur. Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik en vörnin var ekki alveg eins góð í síðari hálfleik. Við munum vinna í því á milli leikjanna. Við viljum leika enn betur í síðari leiknum og munum leggja allt í sölurnar til að verða meistarar,“ segir Martin Nagy.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert