„Mótssvæðið stóðst vatnsveðrið

„Mótssvæðið stóðst vatnsveðrið með ólíkindum vel. Mælanlega vel því það voru sett met í skeiðgreinum, hæstu einkunnir í A-flokki sáust og met voru slegin í kynbótadómum þrátt fyrir veðrið,“ sagði Sigurður Ævarsson, mótsstjóri landsmóts. Hann sagði vellina hafa komið mörgum á óvart; að þeir skyldu ekki verða hreinlega ófærir í vatnsveðrinu. Sigurður var ánægður í mótslok enda hestakosturinn með eindæmum góður.

Það er ánægjulegt hversu margir komu þrátt fyrir veðrið en um tíu þúsund manns mættu á Gaddstaðaflatir,“ sagði Axel Ómarsson, framkvæmdastjóri landsmóts, en því lauk um miðjan dag í gær. Um fjögur þúsund erlendir gestir voru á mótinu. „Það sást best hversu margir útlendingar voru í brekkunni þegar þulirnir báðu áhorfendur að klappa hrossunum lof í lófa. Þegar þeir töluðu ensku heyrðust mun háværari fagnaðarlæti í brekkunni.“

Axel benti á að markaðssetning erlendis hefði skilað sér vel samanber fjölda erlendra gesta. Um sex þúsund Íslendingar mættu á Hellu og fjölgaði gestunum mest yfir helgina. „Við keppum við marga viðburði sem eru á sama tíma eins og heimsmeistaramótið í fótbolta og fleiri viðburði. Það er umhugsunarefni,“ sagði Axel.

Fyrsti dagur mótsins á sunnudaginn var sá eini þar sem rigndi ekki. Sólin skein fyrripartinn á síðasta degi mótsins og voru mótsgestir ekki lengi að afklæðast. Það stóð þó stutt því á meðan síðustu úrslitin í B-flokki fóru fram tók að rigna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert