Dómstörfin skila traustri ræktun

Þorvaldur Kristjánsson hrossaræktarráðunautur.
Þorvaldur Kristjánsson hrossaræktarráðunautur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að útkoman hafi aldrei verið betri en nú. Þetta verður algjör veisla,“ segir Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur og ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, spurður út í kynbótahrossin á Landsmóti.

168 kynbótahross koma fram á Landsmótinu í sumar og eru það efstu hrossin í átta flokkum hryssna og stóðhesta frá fjögurra vetra og upp í sjö vetra og eldri. Fjöldatakmarkanir eru notaðar í stað lágmarkseinkunnar sem gilti inn á síðustu Landsmót. Ástæðan er m.a. sú að lengja þurfti dagskrá síðasta Landsmóts á Hellu árið 2014 um einn dag því aldrei fleiri kynbótahross höfðu náð lágmarkseinkunn.

Skipulag og dagskrárliðir Landsmóta eru í sífelldri endurskoðun og eru kynbótasýningar ekki undanskildar því. „Það var ákall eftir því að fækka kynbótahrossum, sérstaklega eftir síðustu tvö mót þegar kynbótadómar hófust snemma um morgun og voru langt fram eftir kvöldi. Fólk vildi fækka þeim svo hvert og eitt hross fengi meiri athygli. Með þessum hætti er einnig miklu auðveldara að skipuleggja mótið því við vitum hvað hrossin eru mörg og dagskráin verður áhorfendavænni,“ segir Þorvaldur.

5 vetra hryssur flestar

Á Landsmóti mæta kynbótahross eingöngu aftur í hæfileikadóm en halda byggingardómi sem þau hlutu í vordómi. Að loknum dómi á hæfileikum koma hrossin í yfirlitssýningu en þar eiga þau möguleika á að hækka einkunn sína.

Á þessu ári hafa verið haldnar 11 vorsýningar og í þeim fóru 1.066 hross í dóm. En eflaust stefndu allir leynt og ljóst að því sama, að komast með hross inn á Landsmót. Af þessum fjölda mæta 168 hross á Landsmót eins og fyrr segir.

Hlutfallslega eru flest kynbótahross í yngstu flokkunum, í fimm vetra flokki hryssna eru 35 hross. Á síðustu Landsmótum hefur sá flokkur verið sá stærsti. „Við fækkuðum minnst í flokkum yngstu hrossa og eru þau hlutfallslega fleiri á þessu móti en hefur verið hingað til. Fólki finnst verðmætt að sjá ungu hrossin í dómi,“ segir Þorvaldur.

Hann bendir á að skiptar skoðanir hafa verið á því hvort elstu hrossin eigi að koma fram á Landsmóti eða ekki. Ákveðið var að þau yrðu fæst, 15 hryssur og 10 stóðhestar í flokki sjö vetra og eldri. „Þetta verður algjör rjómi en þessir flokkar hafa líklega aldrei verið öflugri,“ segir Þorvaldur. Hann er ekki á þeirri skoðun að sleppa eigi elstu flokkunum því verðmæti felist í því að sjá hvernig hrossin þróist í þjálfun með árunum og mikilvægt að sýna það á Landsmóti.

Í þessu samhengi bendir hann á að það megi vel endurhugsa fjöldann í hverjum flokki fyrir næsta mót en eins og staðan er núna eru allir flokkarnir firnasterkir.

Eingöngu yfirlit ekki raunhæfur kostur

Spurður hvort það hafi komið til tals að vera eingöngu með yfirlitssýningu kynbótahrossa á Landsmóti þar sem hrossin geti bara hækkað segir hann það ekki raunhæfan kost. „Það eru mikil verðmæti í því fyrir marga að fá að sjá hross í fullnaðardómi, sérstaklega stóðhestana, til að fá heildarmynd af þeim.“ Hann bendir á að vandi geti skapast ef hross koma bara fram á þessu millistigi þ.e.a.s. í yfirlitssýningu. Þorvaldur nefnir ókostinn við slíkt fyrirkomulag að sem dæmi geti hross komið fram og átt ekki sinn besta dag á öllum gangtegundum nema t.d. á skeiði og náð að hækka þá gangtegund og staðið á endanum sem efsta hrossið í sínum flokki. „Það hross er kannski ekki besta hrossið á mótsstað,“ segir Þorvaldur.

Dómstörfin þróast

Dómstörf kynbótadómara halda áfram að þróast í takt við tímann. Stefnt er að því að eftir tvö ár verði komið í notkun nýtt kynbótadómakerfi. Vinna við að endurskrifa og endurhugsa dómskalann er þegar hafin. „Við stefnum að því að gera jákvæðar breytingar á þessu kerfi,“ segir Þorvaldur. Margt hefur þróast í dómstörfunum undanfarin ár. „Ríkari áhersla er á gæði gangtegundanna. Þó rými sé vissulega mikilvægur eiginleiki þá fá fá hross sem eru með frábært hægt tölt hærra fyrir tölt þó þau sýni ekki ýtrustu ferð. Hægu gangtegundirnar eins og hægt tölt og hægt stökk eru farnar að vega meira inn í lokaeinkunn fyrir tölt og stökk en var. Það er jákvæð þróun. Enda eru það verðmætustu hrossin til ræktunar sem búa yfir gæðum í gangtegundunum tölti, brokki og stökki á öllum hraðastigum. Bæði til að rækta keppnis- og reiðhross þurfum við þessa gerð af hrossum sem búa yfir mýkt og léttleika, hafa burð á hægu og eru sjálfberandi. Mat á brokkið hefur líka þróast. Hross sem sýna rétta líkamsbeitingu á brokki, sýna svif, réttan takt og ráða yfir því á ýmsum hraðastigum fá hærra fyrir brokk þó þau sýni ekki ýtrustu ferð. Fyrir hæstu einkunnir, 9,5 og 10 fyrir brokk, gerum við kröfu um hraðabreytingu á brokki. Þetta er þróunin sem hefur átt sér stað í þessum gangtegundum. Við þurfum jafnvel að leggja meiri áherslu á að hrossin haldi gæðum á hægri ferð. Við þurfum að skilgreina betur hvert við stefnum með brokkið svo dæmi sé tekið og ræktunarmarkmið brokks yfir höfuð,“ segir Þorvaldur.

Þarf að draga úr álagi á ung hross

Hann sér einnig fyrir sér aðra nálgun til að meta vilja og geðslag hrossanna. Í einkunn fyrir vilja og geðslag er lögð áhersla á að hross séu þjál og spennulaus og hafa þau verið að fá almennt hærri einkunn þó þau séu ekki sprengiviljug. „Þar er stærsta verkefni til framtíðar að draga úr spennu og viðkvæmni og tryggja betur að hrossin sem eru verðlaunuð sem mest í dómi séu að framkvæma verkefnið í andlegu jafnvægi og séu þjál – þetta þarf að fara saman með vilja, framhugsun og hlaupagleði. Maður sér fyrir sér að hægt væri að setja inn verkefni í dóminn sem knapinn þarf að leysa á hrossunum til að sýna fram á að hesturinn sé spennulaus og þjáll. Það væri líka gert til þess að draga úr álagi á ung hross en það þarf sérstaklega að draga úr álagi á þau. Ég held að það sé líka gott upp á að hross komi almennt betur upplögð út úr dómnum og tilbúinn að takast á við önnur verkefni. Að þau verði ekki uppspennt og það taki tíma til að ná þeim niður eftir dóminn. Við þurfum að hafa í huga að það bíður þessara hrossa ýmis verkefni, s.s. keppni og þá þarf kynbótadómurinn að vera jákvæð og uppbyggileg upplifun. Við þurfum einnig að létta verkefnið fyrir ungu hrossin “ segir hann.

Þorvaldur sér ýmislegt fyrir sér til að létta verkefnið fyrir ungu hrossin, t.d. að fækka ferðum. „Dómarar eru snöggir að lesa eðlisgæði hrossa og eru fljótir að sjá hvernig hestgerðir eru á ferðinni. Við þurfum ekki alla þessa reið til að meta þau.“

Hann segir hrossin koma almennt betur undirbúin og meira tamin til dóms. „Við sjáum merkjanlegar framfarir í reiðmennsku ár frá ári og fullt af frábærum sýningum. Við þurfum samt að halda áfram að gera enn betur.“

Þorvaldur er fullur bjartsýni í garð íslenskrar hrossaræktar. „Þetta dómkerfi og starf ræktenda hefur skilað gríðarlegum framförum á síðustu árum. Við sjáum framfarir á hverju ári. Við erum með mjög verðmætar hestgerðir í stofninum og mikinn styrk í ræktuninni. Þetta er undir okkur komið hvernig við spilum úr þessu, hvernig reiðmennskan þróast, hvernig við vinnum úr því að skapa ennþá sterkari ímynd fyrir íslenska hestinn og hvernig við stöndum að markaðssetningu og sölumálum íslenska hestsins. Þetta mun ráða úrslitum um framtíð hestsins. Gæðin eru fyrir hendi. Við viljum að ásýnd hestsins og hestahaldsins verði enn fágaðri. Íslenski hesturinn er í raun eitt af því mikilvægasta sem Íslendingar hafa fram að færa, sérstaða kynsins er gríðarleg og Íslendingar eru ein af hestaþjóðum heimsins – þetta er aldrei augljósara en á Landsmótsárum.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert