Söngkonur framtíðarinnar

Vinkonurnar Jóhanna Karen Haraldsdóttir 12 ára og Katrín Eir Ásgeirsdóttir 11 ára unnu söngvakeppni barna á landsmótinu. Þær fluttu lagði Í síðasta skipti eftir Friðrik Dór, Jóhanna Karen söng og Katrín Eir túlkaði með leikrænum tilburðum. Þetta er uppáhaldslagið þeirra og greinilega hafa þær æft það nokkrum sinnum áður. Þær eru báðar í söngnámi, Jóhanna er í Söngskóla Margrétar Eirar og Katrín er í söng- og leiklist í Borgarleikhúsinu.

„Mjög skemmtilegt og fáránlega flottir hestar,“ segja þær báðar í kór spurðar hvernig þeim lítist á landsmótið. Verðlaunin fyrir að vinna söngvakeppnina eru m.a. að syngja á stóra sviðinu í kvöld. Þær hlakka til að syngja fyrir allan fjöldann en viðurkenna þó að vera með smá kvíðahnút í maganum og skella báðar upp úr.

Á myndbandi með fréttinni má sjá systurnar Ragnhildi og Sigurbjörgu sem sigruðu í söngvakeppninni í fyrra. Þær tóku nokkur lög við góðar undirtektir viðstaddra. 

Efnilegar stúlkur með túlkandi tilburði.
Efnilegar stúlkur með túlkandi tilburði. mbl.is/Þórunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert