Arður hlýtur Sleipnisbikarinn

Arður frá Brautarholti og Sigurður Vignir Matthíasson.
Arður frá Brautarholti og Sigurður Vignir Matthíasson. mbl.is/Þórunn

Stóðhesturinn Arður frá Brautarholti hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og Sleipnisbikarinn á Landsmótinu. Sleipnisbikarinn sem hefur verið veittur á hverju Landsmóti frá árinu 1950, eru ein æðstu verðlaun í íslenskri hrossarækt. Bikarinn er veittur þeim stóðhesti sem efstur stendur hverju sinni úr hópi þeirra sem þar hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Skilyrðin til að hljóta heiðursverðlaun eru þau að stóðhesturinn eigi minnst 50 dæmd afkvæmi og að hann hafi að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats.

Arður frá Brautarholti er með 122 stig og 51 dæmt afkvæmi. Arður er undan Orra frá Þúfu og Öskju frá Brautarholti. Stóðhesturinn Gaumur frá Auðsholtshjáleigu er með 118 stig og 72 dæmd afkvæmi og hlýtur hann einnig heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið. Gaumur er einnig undan Orra frá Þúfu og Hildi frá Garðabæ. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Lágmörk vegna afkvæmasýninga á stóðhestum miðast við kynbótamat aðaleinkunnar eins og það reiknast að afloknum héraðssýningum vorið 2016 og fjölda dæmdra afkvæma. Öll dæmd afkvæmi hestanna liggja til grundvallar kynbótamatinu. Öll afkvæmi sem fylgja hestunum skulu vera dæmd í kynbótadómi. Heiðursverðlaunahestum skulu fylgja 12 afkvæmi í sýningu en 1. verðlauna hestum 6 afkvæmi. Til að hljóta fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi þarf hesturinn að eiga 15 dæmd afkvæmi og hafa að lágmarki 118 stig í kynbótamati aðaleinkunnar en til að hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi þarf að eiga 50 dæmd afkvæmi og hafa að lágmarki 118 stig.

Fimm fá 1. verðlaun fyrir afkvæmi

Alls verða stóðhestar sem taka við afkvæmaverðlaunum á landsmóti sjö en tveir taka við heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi og fimm taka við fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi.

Spuni frá Vesturkoti stendur efstur til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi með 128 stig og 24 dæmd afkvæmi. Alls voru sýnd undan honum 20 ný afkvæmi í ár, flest fjögurra vetra, sem er magnaður árangur. Annar í röð til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi stendur Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum með 123 stig og 23 dæmd afkvæmi. Álffinnur náði lágmörkum til fyrstu verðlauna fyrir afkvæmi í fyrra, þá einungis átta vetra gamall sem er einsdæmi og frábær árangur. Í þriðja sæti er Grunur frá Oddhóli með 119 stig og 17 dæmd afkvæmi. Raðast Grunur ofar næsta hesti á aukastöfum en í fjórða sæti er Seiður frá Flugumýri II, einnig með 119 stig og 17 dæmd afkvæmi. Í fimmta sæti er svo Kjerúlf frá Kollaleiru með 118 stig og 17 dæmd afkvæmi.

Eigendur og ræktendur Arðs frá Brautarholti.
Eigendur og ræktendur Arðs frá Brautarholti. mbl.is/Þórunn
Arður frá Brautarholti
Arður frá Brautarholti Ljósmynd/Kolla Gr
Arðssonurinn Vökull frá Efr-Brú og Ævar Örn Guðjónsson
Arðssonurinn Vökull frá Efr-Brú og Ævar Örn Guðjónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert