Gekk allt upp

mbl.is/Þórunn

„Í fyrsta lagi þarf maður að hafa ofboðslega góðan hest og þekkja hann vel.  Ég vissi að ef ég ætlaði að vinna þetta þyrfti allt að ganga upp. Þetta voru mjög sterk úrslit með frábærum hestum,“ segir Eyrún Ýr Pálsdóttir en hún sat Hrannar frá Flugumýri II sem vann A-flokkinn á Landsmóti með 9,16 í einkunn. Eftir bæði forkeppni og milliriðla var Hrannar efstur og pressan því þónokkur á Eyrúnu að halda forystunni.  

„Ég var ekkert stressuð fyrir forkeppnina en yfirleitt er ég frekar slök. En í milliriðlunum varð ég allt í einu mjög stressuð. Fyrst það gekk upp og ég náði að klára það ákvað ég að njóta þess og hafa gaman af þessu. Það var ekkert annað í stöðunni,” segir Eyrún Ýr spurð út í spennustigið.

Eyrún Ýr er fyrsta konan sem vinnur A-flokk á Landsmóti. „Við hefðum auðvitað átt að vera búnar að vinna þennan A-flokk fyrir löngu,” segir hún og hlær.  

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það,” segir hún innt eftir því hvort stefnt sé með Hrannar á Heimsmeistaramót í Hollandi á næsta ári. Hrannar er í eigu fjölskyldu hennar. Eyrún frumtamdi Hrannar fjögurra vetra gamlan en hefur verið með hann frá sex vetra aldri.  

Eftir Landsmót fer Hrannar í merar og verður nóg að gera hjá honum í sumar. Eyrún Ýr er ekki búin að taka ákvörðun hvort hún ætlar að reyna að verja Íslandsmeistaratitilinn í fimmgangi seinna í júlímánuði. Hún segir að það verði að koma í ljós þegar nær dregur.

A-flokkur gæðinga
Sæti Keppandi
1 Hrannar frá Flugumýri II / Eyrún Ýr Pálsdóttir 9,16
2 Arion frá Eystra-Fróðholti / Daníel Jónsson 9,04
3 Skýr frá Skálakoti / Jakob Svavar Sigurðsson 8,92
4 Undrun frá Velli II / Elvar Þormarsson 8,91
5 Krókus frá Dalbæ / Sigursteinn Sumarliðason 8,91
6 Sjóður frá Kirkjubæ / Guðmundur Björgvinsson 8,83
7 Nagli frá Flagbjarnarholti / Sigurbjörn Bárðarson 8,80
8 Þór frá Votumýri 2 / Atli Guðmundsson 8,65

mbl.is/Þórunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert