Maradona: Meðferðin á Messi er hneyksli

Diego Maradona fagnar Lionel Messi eftir sigurinn í gærkvöld.
Diego Maradona fagnar Lionel Messi eftir sigurinn í gærkvöld. Reuters

Diego Maradona, þjálfari argentínska landsliðsins í knattspyrnu, gerði lítið úr því að lið hans hefði komist yfir gegn Mexíkó á ólöglegu marki í gærkvöld og sagði að dómararnir gerðu stærri mistök með því að leyfa mönnum að sparka að vild í Lionel Messi.

Argentína vann Mexíkó, 3:1, í 16-liða úrslitunum á HM í Suður-Afríku þar sem Carlos Tévez skoraði tvívegis, og var rangstæður í fyrra markinu þegar hann skallaði boltann í netið eftir sendingu frá Messi.

„Í hvert einasta skipti sem Messi fær boltann reyna allir að sparka í lappirnar á honum. Það er hneyksli hvernig menn fá að fara með hann, þeir reyna ekki einu sinni að ná  boltanum þegar þeir sparka í hann. Ég fékk að kenna á þessu sama fyrir 20 árum, þegar ég var alltaf með þrjá menn á mér. Ég skil Mexíkóana vel en það eru takmörk fyrir öllu," sagði Maradona við fréttamenn eftir leikinn.

Hann vildi sem minnst ræða um leikinn við Þýskaland í átta liða úrslitunum næsta föstudag. „Við munum stilla upp liði sem getur sigrað Þýskaland. Við vitum að Þjóðverjar eru með sterkara lið en Mexíkó. En hversvegna ætti ég að hugsa um það núna? Ég hef nógan tíma til þess á morgun. Þið getið farið og skrifað það sem þið viljið um hvað mér gæti fundist um Þýskaland," sagði Maradona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert