Segja að Suárez fái fjögurra leikja bann

Luis Suárez og Giorgio Chiellini.
Luis Suárez og Giorgio Chiellini. AFP

Spænska íþróttadagblaðið AS segir að samkvæmt sínum heimildum muni Luis Suárez fá fjögurra leikja bann frá landsleikjum fyrir að bíta Ítalann Giorgio Chiellini í viðureign Ítalíu og Úrúgvæ í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu.

Það er íþróttafréttamaðurinn Guillem Balague sem skrifar fréttina en hann er heimsþekktur fyrir góð sambönd og áreiðanlegar fréttir úr fótboltanum.

Hann segir að bann FIFA muni aðeins ná yfir landsleiki, málið sé þar skoðað sem einstakt atvik en ekki í samhengi við fyrri brot Suárez. Bannið nái til fjögurra leikja til að öruggt sé að Suárez gæti ekki spilað meira á HM, þó svo Úrúgvæ kæmist alla leið í úrslitaleikinn.

Reiknað er með því að FIFA birti niðurstöðu sína fyrripartinn á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert