Suárez lánaður til Kósóvó?

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Knattspyrnufélagið Hajvalia frá Kósóvó kveðst hafa gert Liverpool tilboð í Luis Suárez sem hljóðar uppá lánsdvöl hjá félaginu á meðan hann afplánar fjögurra mánaða bannið hjá FIFA.

Kósóvó er ekki meðlimur í FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, þar sem landið hefur ekki fengið fullt sjálfstæði frá Serbíu.

Dagblaðið Kosovo Daily Sport hefur eftir stjórnarformanni Hajvalia, Xhavit Pacolli, að félagið hafi boðið Liverpool 30 þúsund evrur og sé tilbúið til að greiða Suárez 1.500 evrur á mánuði í laun. Það eru svo mikið sem rúmar 230 þúsund íslenskar krónur.

„Við getum ekki boðið meira en þetta. Kannski hljómar þetta fáránlega í hans eyrum en betur getum við ekki gert. Ef hann vill koma og spila með okkur, er hann velkominn. Við erum ekki meðlimir í FIFA þannig að þetta væri alveg gráupplagt fyrir hann," segir Pacolli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert