Argentína sektuð um 38 milljónir vegna skróps

Alejandro Sabella einn á fundi á HM.
Alejandro Sabella einn á fundi á HM. AFP

Argentínska knattspyrnusambandið hefur verið sektað um 300 þúsund svissneska franka, jafnvirði 38 milljóna íslenskra króna, fyrir ítrekuð skróp leikmanna liðsins á blaðamannafundum á heimsmeistaramótinu í Brasilíu.

Þrívegis hefur það gerst að Alejandro Sabella þjálfari hefur mætt einn fyrir hönd liðsins á fundina í stað þess að lágmark einn leikmaður fylgi þjálfaranum þangað, eins og kveðið er á um í reglum FIFA sem liðunum er skylt að fylgja.

Á fundum fyrir leikina gegn Nígeríu, Sviss og Belgíu var Sabella eini Argentínumaðurinn sem sat fyrir svörum hjá fréttamönnum en að öllu jöfnu hefði fyrirliðinn Lionel Messi eða einhver annar fulltrúi leikmannanna átt að mæta með honum.

Nú bíða menn eftir því hvort þessi sekt dugi til þess að einhver leikmannanna mæti á fundinn fyrir úrslitaleik HM um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert