Zabaleta vill vinna í landi erkióvinarins

Pablo Zabaleta er spenntur að mæta Þjóðverjum.
Pablo Zabaleta er spenntur að mæta Þjóðverjum. AFP

Argentínumaðurinn Pablo Zabaleta segir að það yrði sérstaklega sætt að vinna heimsmeistaratitilinn í landi erkióvinarins, Brasilíu, en liðið leikur til úrslita gegn Þjóðverjum á sunnudagskvöld.

Þjóðirnar hafa lengi eldað grátt silfur í knattspyrnuheiminum og samanburður á þeim Diego Maradona og Pele verið þrálátur í gegnum tíðina. Zabaleta segir landa sína hungraða eftir fyrsta heimsmeistaratitlínum frá árinu 1986.

„Það er sérstakt fyrir okkur að spila í þessu landi, sérstaklega þar sem brasilískir stuðningsmenn hafa verið mikið á móti þeim argentínsku. En stundum þegar allt virðist á móti þér þá kemurðu tvíefldur til baka og við sýndum það gegn Hollandi,“ sagði Zabaleta sem segir liðið óhrætt að mæta Þjóðverjum.

„Þýskaland er líklega með besta liðið á þessu móti en eins og við segjum í Argentínu; við spilum ekki úrslitaleikinn - við vinnum hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert