Hollendingar tóku þriðja sætið

Hollendingar tryggðu sér bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í kvöld með því að leggja heimamenn í Brasilíu í leiknum um þriðja sætið, 3:0.

Strax á þriðju mínútu leiksins komust Hollendingar yfir þegar Robin van Persie skoraði úr vítaspyrnu. Hún var dæmd eftir að Thiago Silva reif Arjen Robben niður og fékk einungis gult spjald fyrir þó Robben væri að sleppa í gegn, en brotið var hins vegar klárlega utan teigs og því tveir umdeildir dómar á sama augnablikinu.

Strax á 17. mínútu var staðan orðin 2:0, þegar Daley Blind skoraði úr miðjum vítateignum eftir að David Luiz gerði sig sekan um slæm mistök þegar hann ætlaði að hreinsa frá marki Brasilíumanna. Staðan 2:0 í hálfleik.

Brasilíumenn reyndu hvað þeir gátu í síðari hálfleik en hlutirnir vildu ekki detta með þeim. Oscar var þeirra líflegastur, en hann fékk þó meðal annars gult spjald fyrir dýfu innan teigs. Ekki tókst heimamönnum að finna netmöskvana en það gerði Georginio Wijnaldum hins vegar í uppbótartíma og gulltryggði sigur Hollands, lokatölur 3:0.

Hollendingar enduðu því í þriðja sæti mótsins en á morgun kemur í ljós hver stendur uppi sem sigurvegari þegar úrslitaleikur Argentínu og Þjóðverja fer fram.

Hollendingar fagna fyrsta marki sínu í kvöld.
Hollendingar fagna fyrsta marki sínu í kvöld. AFP
Neymar sat á bekknum og gæti hafa fellt tár.
Neymar sat á bekknum og gæti hafa fellt tár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert